Bræðurnir á Berki

Deila:

Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. birtir heimasíðan pistla um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um bræðurna fjóra sem allir gegndu starfi skipstjóra á Berki NK. Það er án efa fátítt að þrír bræður hafi verið skipstjórar á sama skipinu og sá fjórði hafi verið stýrimaður og skipstjóri í afleysingum. Það er þó staðreynd að á Berki NK var þessu þannig háttað.

Bræðurnir á Berki ásamt foreldrum þegar haldið var  upp á níræðisafmæli þeirra. Fremst sitja foreldrarnir, Berg Valdimar Andrésson og Pálína Hildur Ísaksdóttir. Í aftari röð eru bræðurnir og skipstjórarnir. Talið frá vinstri  Helgi Geir, Ísak, Sigurjón og Hjörvar. Ljósm. Reynir Neil.

Bræðurnir á Berki ásamt foreldrum þegar haldið var
upp á níræðisafmæli þeirra. Fremst sitja foreldrarnir,
Berg Valdimar Andrésson og Pálína Hildur Ísaksdóttir.
Í aftari röð eru bræðurnir og skipstjórarnir. Talið frá vinstri
Helgi Geir, Ísak, Sigurjón og Hjörvar. Ljósm. Reynir Neil.

Þegar Síldarvinnslan festi kaup á Berki árið 1973 var Sigurjón Valdimarsson ráðinn skipstjóri. Sigurjón, eða Díi eins og hann var oftast nefndur, hafði starfað hjá Síldarvinnslunni frá árinu 1965 eða frá því að fyrirtækið hóf útgerð. Hann var ráðinn skipstjóri á Barða, sem var fyrsta skipið í eigu Síldarvinnslunnar, og fór síðan yfir á fyrsta Börk þegar hann kom nýr til landsins árið 1966. Árið 1973 var síðan ákveðið að festa kaup á stóru skipi sem fyrst og fremst var hugsað til loðnu- og kolmunnaveiða og þá þótti sjálfsagt að Sigurjón tæki við því. Þetta stóra skip fékk nafnið Börkur og voru kaupin á því umdeild. Síldarvinnslumenn voru sannfærðir um að kaup á svo stóru skipi væru skynsamleg en ýmsir aðrir töldu skipið allt of stórt og það myndi aldrei henta til nótaveiða. Sagt var að kasthringur þess yrði svo stór að engin venjuleg nót myndi duga.

Fljótlega þögnuðu gagnrýnisraddirnar. Díi hóf að fiska á skipið með miklum ágætum og að því kom að allir viðurkenndu að vel væri unnt að leggja stund á nótaveiðar á skipum sem gætu flutt yfir 1.000 tonna afla að landi í veiðiferð.

Díi var skipstjóri á Berki til ársins 1981 en tók þá við Beiti NK, sem Síldarvinnslan festi þá kaup á. Hann stýrði Beiti með farsælum hætti til ársins 2006 en þá lét hann af störfum fyrir aldurs sakir. Alls spannaði skipstjóraferill Día á skipum Síldarvinnslunnar rúm 40 ár. Alla tíð var hann þekktur fyrir að vera mikill aflamaður og hugsa jafnframt einstaklega vel um skip, veiðarfæri og áhöfn.

Þegar á árinu 1974 var tekin ákvörðun um að ráða annan skipstjóra á Börk sem myndi vera með skipið á móti Día. Fyrir valinu varð yngri bróðir hans, Hjörvar, og í ein tvö ár skiptust þeir á að sitja í skipstjórastóli. Á meðan þeir bræður skiptust á að stýra Berki kom þriðji bróðirinn, Ísak, til sögunnar. Hann var þá ráðinn stýrimaður, en Ísak var síðan afleysingaskipstjóri á skipinu um tíma löngu síðar, eða í kringum 1995.

Og saga bræðranna á Berki er ekki öll því á árunum 1989-1993 var Helgi Geir, sem var yngstur þeirra bræðra, skipstjóri á Berki. Helgi Geir er enn á sjónum og hefur að undanförnu verið skipstjóri á Ísleifi VE.

Vissulega gerir það sögu Barkar merkilega að svo margir bræður hafi setið í skipstjórastóli skipsins en eins er það athyglisvert að á þeim 43 árum sem skipið var í eigu Síldarvinnslunnar var afli þess rúmlega 1,5 milljón tonna. Það fiskaðist svo sannarlega vel á Börk og áttu bræðurnir drjúgan þátt í því.

 

Deila: