Grindin veður í Norðurfirði á Ströndum

Deila:

Hópur grindhvala, eða marsvína, hefur gert sig heimakominn í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum. Íbúar urðu hópsins varir í fyrrinótt og er vaðan enn í firðinum. Vaðan telur um 30 dýr. Gísli Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, staðfestir að þetta séu grindhvalir. Þótt grindhvalir haldi sig jafnan utan landgrunnsins, þar sem þeir lifa helst á smokkfiski, þá eiga dýrin það til að leita á grunnsævi, jafnvel á land og er ekki vitað hvers vegna.  Frá þessu er sagt á ruv.is

Grindhvalir leita í auknum mæli á grunnsævið

Hulda Björk Þórisdóttir, verslunarstjóri í Norðurfirði, horfði á hvalina handan kaupfélagsins þegar fréttastofa náði tali af henni. Elín Agla Briem, sem býr einnig í Norðurfirði, segir að á sama tíma árs árið 2014 hafi grindhvalavaða einnig komið að landi í Norðurfirði.

Gísli segir að svo virðist vera sem að grindhvalavöður hafi leitað í auknum mæli á grunnsævið umhverfis landið undanfarin fimm ár. Hann segir að skilyrði sjávarlífvera hafi breytst mikið með hlýnun sjávar og gæti það valdið því að grindhvalir færi sig norðar á bóginn, þó það sé ekki staðfest.

Ekki vitað hvað veldur

Nokkuð algengt er að marsvín syndi í hópum á land. Ekki er ljóst hvað stýrir slíkri hegðun. Gísli segir ýmsar tilgátur vera um ástæðu þess. Grindhvalir rata eftir bergmáli og ein kenning er sú að þegar hvalirnir eru komnir af sínu kjörsvæði í úthöfunum þá geti rötunarfærnin brenglast, önnur sé sú að hvalirnir rati eftir segulsvið og strandi einkum þar sem eru óreglur í segulsviði og svo séu tilgátur um að snýkjudýr í eyrnargöngum valdi því að hvalirnir fari af leið.  Í texta eftir Gísla og Droplaugu Ólafsdóttur í bókinni Íslensk spendýr segir að þegar hluti hópsins hefur synt á land getur sterk samheldni hópsins valdið því að þau dýr sem utar eru fylgja beint í opinn dauðann í fjöruborðinu.
Mynd Hulda Björk.

http://www.ruv.is/frett/grindhvalavada-i-nordurfirdi-a-strondum

 

 

Deila: