Allir með Gloríu á úthafskarfanum

Deila:

,,Þetta gekk mjög vel. Rússneska áhöfnin var mjög fljót að ná tökum á veiðarfærinu og það gekk hnökralaust fyrir sig. Eins og gengur þurfti að stilla toghlerana og annan búnað og þegar það var búið, gekk allt eins og í sögu og við lentum fljótlega í ágætri veiði.“

Þetta segir Sæmundur Árnason, sölustjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni í samtali á heimasíðu félagsins, en hann kom í land sl. þriðjudag eftir að hafa verið um borð í rússneska togaranum Rybak í tæpar þrjár vikur. Útgerð togarans keypti nýverið Gloríu 2560 metra úthafskarfatroll hjá Hampiðjunni og eru að nota Thyborøn toghlera af gerðinni 15. Hvor um sig vegur 3.400 kg og flatarmálið er 13 m2. Hlutverk Sæmundar var að aðstoða áhöfnina varðandi notkun á  nýja veiðarfærinu og það gekk sem fyrr segir mjög vel.

Hampiðjan úthafskarfi 2

,Við byrjuðum veiðarnar á bletti um 20-30 mílur vestan við landhelgislínuna en þar hafði þá verið mjög góð veiði í nokkra daga. Við náðum fjórum góðum dögum og aflinn var þetta tvö til þrjú tonn á togtímann. Þá brældi hressilega og ekki var hægt að stunda veiðar á meðan en eftir bræluna vorum við á svipuðum slóðum og fengum 1,5 til 2,0 tonn á tímann. Allt í allt vorum við þarna vestan við línuna í eina tíu daga en núna er veiðin þétt við landhelgismörkin. Fyrir utan línuna eru erlendu skipin, aðallega frá Rússlandi, en í þeim hópi voru líka skip frá Þýskalandi, Noregi og Spáni.

Á þessu skáskoti má sjá hvernig togararnir raða sér upp við línuna á toginu.

Á þessu skáskoti má sjá hvernig togararnir raða sér upp við línuna á toginu.

Fyrir innan voru svo þrír íslenskir togarar, Örfirisey RE, Vigri RE og Arnar HU,“ segir Sæmundur en samkvæmt upplýsingum hans voru alls 20 togarar að veiðum við línuna.

,,Allir þessir togarar voru með Gloríu úthafskarfatroll frá Hampiðjunni og það sýnir glögglega stöðu þessa veiðarfæris á þessum markaði.“
Þótt rætt sé um úthafskarfaveiðar er karfinn, sem veiðist við landhelgislínuna á Reykjaneshryggnum, ekkert nema hreinræktaður djúpkarfi.

,,Þetta er mjög góður fiskur. Við vorum mest að veiða á 300 til 450 faðma dýpi og fengum bara djúpkarfa. Hinn eiginlegi úthafskarfi veiðist mun grynnra og ekki fyrr en líður á sumarið ef kvótinn dugar svo lengi. Íslenski kvótinn á þessu ári er 2019 tonn og hefur verið skorinn mikið niður á undanförnum árum,“ segir Sæmundur Árnason.

Deila: