Minna af norsk-íslenskri síld

Deila:

Heildarbergmálvísitala norsk-íslenskrar síldar í Noregshafi og aðliggjandi hafsvæðum mældist 8% minni en í fyrra samkvæmt niðurstöðum mælinga alþjóðlegs leiðangurs frá því í maí síðastliðinum. Þetta kemur fram á vef Hafró. Þar segir að uppistaðan í síldinni nú hafi verið 2016 árgangurinn, eða sjö ára gömul síld.

Heildarbergmálsvísitala fullorðinnar síldar var 4,1 milljón tonn í samanburði við 4,4 milljón tonn árið 2022. Fram kemur að vísitölur síðustu ára hafi sveiflast lítillega en heilt yfir sýni þær nokkuð stöðuga en minnkandi stofnstærð.

Á þessum árstíma er síldin í fæðugöngu í vesturátt frá hrygningarsvæðum við Noreg. Miðað við þessa dreifingu má ætla að síldin muni halda sig austur og norður af Íslandi í sumar, líkt og undanfarin ár, að því er segir í fréttinni.

Eitt af meginmarkmiðum leiðangursins er að meta magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar og annara uppsjávartegunda. Því til viðbótar er ástand hafsins og vistkerfisins kannað, m.a. hitastig og magn átustofna.

Leiðangurinn er skipulagður innan vinnuhóps Alþjóða Hafrannsóknaráðsins (ICES). Þátttakendur í leiðangrinum auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar, voru rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Bretlandi.

Deila: