Makrílveisla hjá þorskinum

Deila:

Barði NK kom til löndunar á Seyðisfirði í fyrrakvöld með um 90 tonna afla. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að þorskveiði hafi verið treg á hinum hefðbundnu austfirsku togaramiðum og áberandi sé að fiskurinn sé farinn að gæða sér á makríl.

„Það sést makríll víða í þorski á okkar hefðbundnu miðum og staðreyndin er sú að þorskveiðin gengur illa. Það er að vísu ekki óalgengt að þorskur veiðist ekki hér eystra um þetta leyti árs og það var reyndar þannig áður en makríll varð áberandi á miðunum. Líklega er hann uppi í sjó að éta.

Við reyndum fyrir okkur í Hvalbakshallinu, á Fætinum og á Breiðdalsgrunni og það var alls staðar sama sagan. Fengum dálítið af þorski út á Þórsbanka um tíma en svo hvarf hann líka. Það hefur verið töluvert um kolmunna á þessum slóðum en nú virðist þorskurinn ekki líta við honum, hann virðist hins vegar gráðugur í makrílinn – það er líklega veisla hjá honum. Mér þætti ekki ósennilegt að við færum vestur í næsta túr á meðan ástandið er svona hér eystra. En þetta ástand getur síðan breyst á örskammri stundu,“ sagði Steinþór í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Deila: