Vegferð þar sem ekki verður aftur snúið

Deila:

Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur SFS skrifar eftirfarandi pistil á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi:

Við erum þegar lögð af stað í þessa vegferð af nauðsyn og ljóst er að ekki verður aftur snúið ef við ætlum að selja afurðir okkar á bestu mörkuðunum erlendis

Upplýsingagjöf um áhrif veiða á vistkerfið

Kristján Þórarinsson

Við Íslendingar erum sem kunnugt er eyjaskeggjar og vanir að ráða okkar málum sjálfir. Þetta á ekki síst við til sjós þar sem við byggjum á langri reynslu og þekkingu af umgengni um náttúruna.

En tímarnir hafa breyst. Sem fyrr byggjum við á því að selja sjávarafurðir á erlendum mörkuðum. Á seinni árum gera kaupendur afurðanna nýjar og vaxandi kröfur um að hafa sitt að segja varðandi umhverfisþátt veiðanna. Í þessum efnum er byggt á alþjóðasamningum og lykilorðið er gagnsæi. Til skoðunar koma alls konar mál, svo sem áhrif veiða á búsvæði og viðkvæm vistkerfi, meðafli sjófugla og sjávarspendýra, veiðar sjaldgæfra háfiska og lúðu auk útbúnaðar, aðgerða og hvata til að takmarka áhrif á umhverfið. Eftirfylgnin felst meðal annars í úttektum ýmiss konar þar sem skráð gögn um afla og umgengni eru tekin til skoðunar og mats, með eða án vottunar.

Við erum þegar lögð af stað í þessa vegferð af nauðsyn og ljóst er að ekki verður aftur snúið ef við ætlum að selja afurðir okkar á bestu mörkuðunum erlendis. Eina færa leiðin er áfram til aukinnar skráningar og aukins gagnsæis. Hér verða allir sem fiskveiðar stunda, óháð veiðum, skipagerð og veiðarfærum, að taka þátt og leggja sitt af mörkum því að þessi mál eru aldrei einkamál einstakra veiða heldur hafa áhrif á alla og því eru það hagsmunir heildarinnar og krafa að þessir hlutir séu í góðu lagi. Að þessu sögðu vil ég þó flýta mér að bæta því við, að við þurfum að vanda okkur við þetta og gæta þess að setja gögn og upplýsingar í rétt og upplýst samhengi.

Stjórnvöld gegna veigamiklu hlutverki í þessum málum. Þau þurfa að marka sér stefnu og setja viðmið sem byggja á rannsóknum og ráðgjöf, í samráði við þá sem málin varða, og sinna upplýsingagjöf og forsvari í þessum málaflokki. Ljóst þarf að vera hver gegnir hvaða hlutverki og leggja verður til nauðsynlegt fé og starfslið. Stofnanir sem að málum koma, auk ráðuneytis sjávarútvegsmála, eru m.a. Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun og Landhelgisgæslan.

Mikilvægt er að hlúa vel að þessari starfsemi og efla hana. Með þessu móti má tryggja góð samskipti við erlenda kaupendur og styrkja stöðu íslenskra sjávarafurða á útflutningsmarkaði.

 

 

Deila: