Á leið heim með fullt skip

Deila:

Loðnan er brellin og erfið viðureignar á stundum. Suma daga er mokveiði, aðra finnst hún ekki. Vertíðin nú hefur reyndar verið nokkur undantekning frá fyrri vertíðum. Frá upphafi og til 11. þessa mánaðar hafði enginn dagur fallið úr veiðum, fyrr en blaðamaður hringdi í Ólaf Einarsson skipstjóra á Heimaey. „Nú sést ekkert af henni,“ sagði hann á laugardegi. Á sunnudagskvöld var allt annað hljóð í Ólafi: „Við eru á leið heim með fullt skip.“

„Við vorum komnir vestnorðvestur úr Bjarginu einhverjar 20 til 25 mílur. Þar var heldur meira að sjá þó það væri ekki mjög mikið. Þar voru einhverjar torfur sem gáfu ekki mikið, en það náðist. Þetta er held ég restin af þessu, að verða síðustu dagarnir í þessari göngu. En nú er veiði fyrir norðan, ágætis veiði,“ sagði Ólafur á sunnudagskvöldinu.

„Það var leiðinda veður framan af degi í gær  og erfitt að komast út til að leita. Við fundum ekkert fyrr en það lygndi undir kvöld. Þá fundum við eina torfu og náðum um 800 til 900 tonnum í tveimur köstum. Svo fór þetta náttúrlega í fokk í myrkrinu. Síðan fannst þetta dýpra í morgun og í dag. Það hefði þurft að vera betra veður í gær til að komast utar til að leita. Þetta var svona suðvestan fýla,“ sagði Ólafur í seinna símtalinu.

Ætli hún sé ekki bara að hrygna

Svona var hljóðið í honum í því fyrra: „Nú sjáum við ekkert af henni, ætli hún sé ekki bara að hrygna. Það hefur ekkert sést í dag, en þessi dagur hlaut að koma, fyrsti dagurinn á vertíðinni þar sem ekki er veiði. Það er voðalega margt sem bendir til þess að botninn sé að detta úr veiðinni úr göngunni sem við höfum verið að elta hérna. Reyndar var leiðindaveður hér í morgun en menn voru að vonast til að þetta yrði betra þegar liði á daginn, en það virðist ekki ætla að gera það ennþá. Það er bara spurning um að finna eitthvað nýtt. Það eru fregnir af loðnu fyrir norðan land og víðar. Það þarf bara að athuga það, ef ekkert meira verður úr þessu. Þetta er eitthvað rólegt hjá okkur. Við höfum ekkert fregnað af loðnugöngu að vestan, en það gæti nú komið á næstu dögum.“

Við ræðum svo um vertíðina til þessa en hún hefur gengið alveg skínandi vel frá upphafi. „Þetta hefur snúist um það að koma þessu í mestu verðmætin, frystingu eða hrogn og þá erum við að halda aftur af okkur við veiðarnar þess vegna er aflinn minni ef aðeins væri veitt í bræðslu.

Nær enginn hvalur á eftir loðnunni

Þessi vertíð hefur verið mjög frábrugðin því sem verið hefur undanfarin ár. Tíðarfarið hefur verið miklu betra og mikið minna af hval og miklu þéttari og öflugari lóðningar. Auk þess hefur loðnan sjaldan verið jafn stór og góð. Hún er vel haldin greyið. Þetta er það sem skilur þessa vertíða frá þeim síðustu. Það hefur verið mikið minna af hval með þessari göngu en í fyrra og hitteðfyrra. Sáralítið eða ekkert. Hann var áður að djöflast í þessu allan sólarhringinn svo maður getur ímyndað sér hvaða áhrif það hefur haft. Hann étur heil ósköp og sundrar torfunum.“

Engar veiðar í troll voru stundaðar á vertíðinni nú fyrir norðan og austan eins og oft hefur verið áður þar til loðnan þéttir sig. Ólafur segir að það kunni vel að vera að það hafi haft einhver áhrif, en um það viti enginn. Hann telur að meira muni um allan hvalinn í þessu allan tímann heldur en einhverjar veiðar í troll. Það hafi til dæmis ekkert verið trollað í fyrra, en þá hafi ekki verið neitt svipað form þessu eins og núna. „Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um magnið, hvernig þetta gengur fyrir sig. Þetta snýst bara um magnið og þéttleikann á fiskinum.“

Góð sárabót eftir langt verkfall

Mikil óvissa var um það hvort einhver loðnuvertíð yrði að þessu sinni og í haust bentu mælingar fiskifræðinga til þess að engin veiði yrði. Síðan birti aðeins til og seinni leiðangur gaf til kynna að veiða mætti 50.000 tonn. Loks skilaði leiðangur í febrúar niðurstöðum sem leiddu til útgáfu 300.000 tonna kvóta. Ólafur segir að menn þurfi  að fara yfir það hvernig standa skuli að loðnuleiðöngrum. Menn hafi verið búnir lýsa því yfir að engin vertíð yrði núna og ekki heldur á næsta ári. Hann haldi því að fiskifræðingarnir hafi ekki síður verið hissa en skipstjórarnir. „En hvað um það. Þessi loðnuvertíð er góð sárabót eftir langt verkfall.“

Eftir loðnuvertíð tekur kolmunnaveiði við hjá flestum loðnuskipunum. „Það er þá spurning hvenær fiskurinn gengur að sunnan inn í lögsögu Færeyja, en þar megum við veiða, en ekki fara inn í lögsögu ESB. Það er spurningin um það hvað menn vilja elta þetta langt suður,“ sagði Ólafur.
Ljósmynd: Óskar Pétur Friðriksson

 

Deila: