Steig út í óvissuna
Hún flutti úr miðbæ Reykjavíkur vestur á Firði og tók við starfi sem gæðastjóri hjá HG í Hnífsdal. Hún sér ekki eftir því. „Mér finnst bjart yfir íslenskum sjávarútvegi núna, mikið um tækninýjungar og framþróun er hröð,“ segir maður vikunnar á Kvótanum, Heiða Jónsdóttir.
Nafn?
Heiða Jónsdóttir
Hvaðan ertu?
Ég ólst upp í Kópavoginum en á ættir að rekja vestur í Hnífsdal og Ísafjörð.
Fjölskylduhagir?
Einhleyp, finnst það fínt. Ég á góða að, þétta stórfjölskyldu og skemmtilega vini og kunningja sem ég er dugleg að vera með.
Hvar starfar þú núna?
Ég tók við starfi gæðastjóra hjá Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf. fyrir tæpum 3 árum. Þá steig ég útí óvissuna og flutti úr miðbæ Reykjavíkur vestur á Firði. Ég sé ekki eftir því, starfið á vel við mig, ég er búin að læra heilmikið. Ekki skemmir fyrir að starfið er skemmtilegt og fjölbreytt.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Ég á mjög góðar minningar þar sem ég skottaðist á eftir afa þegar ég var yngri, sat aftaná lyftaranum, hjálpaði honum að lesa af mælum í vélarsalnum, og mætti í kaffi með ömmu og konunum í vinnslusalnum.
Síðan þá hef ég haft mikinn áhuga á sjávarútvegi, ég vann reyndar bara eitt sumar í fiski eftir fermingu. Leitaði þó aftur í sjávarútveginn, rúmlega tvítug og eyddi einhverjum mánuðum í að stúdera dauðastirðnun á eldisþorski með tilliti til sláturaðferða og ofurkælingar. Áður en ég byrjaði hjá HG vann ég nokkur ár hjá Vaka fiskeldiskerfi sem hannar og selur vörur fyrir fiskeldi. Þar kynntist ég flottu fólki, lærði mikið, þetta var á þeim tíma sem fiskeldið var að fara aftur af stað.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Það sem kom mér mest á óvart fyrstu dagana í vinnunni var hvað hráefnið og markaðurinn er lifandi. Var búin að ímynda mér að allur fiskurinn væri seldur upp í samninga. Í fyrsta lagi þá er ekkert sjálfgefið að fá gott hráefni á land, ástand hráefnisins getur verið mismunandi eftir árstíma og svo getur veðrið líka haft áhrif á gæði fisksins. Markaðurinn er svo jafnlifandi, til dæmis getur skólafrí í Frakklandi eða tweet frá Trump breytt eftirspurninni á örskotsstundu. Allar þessar breytur þarf að taka inn, þegar vinnsludagurinn er skipulagður.
Einnig kom mér skemmtilega á óvart hvað það er öflugur hópur fólks sem starfar í fiskvinnslum og úti á sjó. HG er með þétta keðju, sem vinnur vel saman, sjómennirnir okkar eru að skaffa vinnslunum frammúrskarandi hráefni, og starfsfólkið í landvinnslu HG er jákvætt, duglegt og alltaf til í allskonar umbótaverkefni með mér.
Mér finnst bjart yfir íslenskum sjávarútvegi núna, mikið um tækninýjungar og framþróun er hröð.
En það erfiðasta?
Sjávarútvegurinn er ansi karllæg atvinnugrein. Sem betur fer er félag kvenna í sjávarútvegi flott, þar hef ég helst náð að efla tengslanetið. Með félaginu hef ég farið í tvær vorferðir og fengið innsýn í vinnslur fyrir austan og norðan. Núna í maí er stefnan sett á Reykjanesið.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Þegar ég ákvað að slá til og taka einn túr sem bryti á sjómælingaskipinu Baldri, hvarflaði ekki að mér að ég gæti orðið sjóveik. Það var því miður ekki raunin, ég varð svo illilega veik að lá við að ég hafi þurft að æla í vaskinn meðan ég hrærði í pottunum. Ég þurfti virkilega að taka á öllu sem ég átti til þess að lifa af fyrsta daginn eða meðan sjóveikistöflurnar voru að kikka inn. Ég sjóaðist nú öll til þegar leið á túrinn, bátsverjar voru að minnsta kosti þokkalega ánægðir með mig og matinn. Ég leyfi mér að minnsta kosti að halda það.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Svenni Bjartar, fyrrum útiverkstjóri í HG. Hann talar hátt og á margar skemmtilegar sögur. Jákvæður og sér alltaf björtu hliðarnar á lífinu.
Ég gleymi því aldrei, rétt eftir fermingu, þegar hann greip mig glóðvolga að slóra við handþvottinn í yfirvinnu. Vinnan hafði dregist eitthvað aðeins og ég ætlaði að krækja mér í nokkrar mínútur í viðbót, held að klukkan hafi verið 7 mínútur yfir þrjú, þegar þessi góði, glaðlindi maður gaf mér engan afslátt og lét mig heyra það, að svona hagaði maður sér ekki.
Hver eru áhugamál þín?
Fyrir utan vinnu þá finnst mér gaman að fara út að leika, hreyfa mig. Ég hef verið lengi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík og er jafnframt meðlimur í Íslenska Alpaklúbbnum. Í gegnum þessi störf hef ég kynnst mörgu skemmtilegu fólki, sem ég nýt þess að fara með í allskonar ferðir og ævintýri.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Eins klént og það er þá er ég algjör „sökker“ fyrir góðu og fersku fiskmeti. HG gellurnar matreiddar af Magga á Tjöruhúsinu standa samt uppúr.
Hvert færir þú í draumfríið?
Ég vil helst hafa eitthvað fyrir stafni þegar ég fer í frí, núna er hjólaferð til Nepal efst á óskalistanum. Það væri líka gaman að fara í skíðafrí til Japans, ekki skemmdi fyrir ef ég gæti komið við á stórum fiskmarkaði í þeirri ferð.