Minna flutt utan frá Færeyjum

Deila:

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum dróst töluvert saman á fyrstu tveimur mánuðum ársins, borið saman við sömu mánuði í fyrra. Samdrátturinn nam tæplega fjórðungi bæði í magni og verðmæti og munar mestu um minni útflutning afurða úr uppsjávarfiski.

Verðmæti útfluttra fiskafurða þessa tvo mánuði var tæplega 19 milljarðar króna sem er 5,7 milljörðum minna en á sama tíma í fyrra. Laxinn skilar áfram mestum verðmætum, 8,4 milljörðum króna, sem er lækkun um 12%. Verðmæti afurða úr makríl, síld og kolmunna var rétt tæpir 4 milljarðar króna og féll um 53%. Botnfiskur skilaði nú 3,2 milljörðum króna sem er samdráttur um 2%. Á hinn bóginn jókst útflutningur á mjöli og lýsi um 633 milljónir króna, sem er 53% vöxtur og skilaði alls 1,9 milljörðum króna.

Alls fóru nú utan 68.455 tonn af afurðum, sem er samdráttur um 21.896 tonn eða tæplega fjórðung. Útflutningur afurða úr uppsjávarfiski féll um 40% eða 23.059 tonn og varð nú 34.231 tonn. Af laxi fóru utan 9.379 tonn, sem er aukning um 6%. Útflutningur á botnfiskafurðum varð 6.668 tonn, sem er samdráttur um 3%. Sala annarra fisktegunda féll um 24% og varð alls 5.218 tonn. 12.958 tonn af fiskimjöli og lýsi fóru utan og er það vöxtur um 24%.

Þegar tölur um magn og verðmæti eru skoðaðar í samhengi er ekki annað að sjá en að verð hafi lækkað eins og til dæmis á laxinum, þar sem magn eykst um 6% en verðmætið lækkar um 12%. Í botnfiski er samdráttur í magni og verðmæti svipaður, en verð á fiskimjöli og lýsi hefur hækkað verulega; magnið eykst um 24% en verðmætið um 53%

Deila: