Magnús hættir sem framkvæmdastjóri Bergs-Hugins
Magnús Kristinsson mun láta af störfum framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum um miðjan næsta mánuð. Frá sama tíma mun Arnar Richardsson taka við starfi rekstrarstjóra félagsins. Bergur-Huginn er dótturfélag Síldarvinnslunnar hf.
Útgerðarfélagið Bergur-Huginn (BH) var stofnað í árslok 1972 í þeim tilgangi að láta smíða togara í Japan og gera hann síðan út. Togarinn kom til landsins árið 1973 og bar nafnið Vestmannaey. BH gerði Japanstogarann út til ársins 2005 ásamt fleiri skipum. Nú gerir félagið út tvo 29 metra togara, svonefnda þriggja mílna báta, og bera þeir nöfnin Vestmannaey og Bergey.
Magnús Kristinsson hefur starfað hjá BH í um 45 ár en starfi framkvæmdastjóra hefur hann gegnt frá árinu 1978 eða í tæp 40 ár. Hann hefur stýrt félaginu með afar farsælum hætti og skilar af sér stöndugu og traustu fyrirtæki. Hinn nýráðni rekstrarstjóri, Arnar Richardsson, er rekstrarfræðingur að mennt og hefur haldgóða reynslu af störfum í sjávarútvegi. Arnar starfaði meðal annars hjá BH á árunum 2006-2009 og einnig á árunum 2010-2015 en frá þeim tíma hefur hann verið framkvæmdastjóri Hafnareyrar ehf. sem er dótturfélag Vinnslustöðvarinnar.
„Síldarvinnslan vill á þessum tímamótum þakka Magnúsi Kristinssyni fyrir einstaklega góð störf í þágu útgerðarfélagsins og bjóða Arnar Richardsson velkominn til starfa. Mun Magnús taka sæti í stjórn BH á næsta aðalfundi félagsins þannig að reynsla hans og þekking mun nýtast því áfram,“ segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Á myndinni eru Bergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson