Miklar sveiflur í fjölda strandveiðibáta

Deila:

Mikil ásókn var í strandveiðarnar strax fyrsta árið og voru 557 bátar skráðir til veiða. Heildarfjöldi báta sem stundað hafa strandveiðar ár frá ári hefur verið óstöðugur allt frá því veiðarnar hófust. Mestur fjöldi báta sem sótti um leyfi var árið 2012 eða 760 en margar breytur geta haft áhrif á fjölda strandveiðibáta. Fréttir um aukningu á kvóta innan kerfisins geta til að mynda skýrt aukningu á leyfisumsóknum árin 2012 og 2016. Árið 2017 fækkaði bátum svo um munar og fóru í fyrsta sinn niður fyrir 600 eftir upphafsárið 2009. Þetta kemur fram í skýrslu un þróun strandveiða sem unnin var af Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið

strandveiðar fjöldi 1

Lækkandi fiskverð á strandveiðum 2016 og að ekki var útlit fyrir hækkandi verð á vormánuðum 2017 hefur vafalítið einnig fælt margan strandveiðisjómanninn burt frá veiðunum. Aukning á kvóta í apríl 2017 var einungis á svæði D og þegar viðbótarkvóti var settur inn í kerfið í ágúst hefur það mögulega verið of seint til að draga fleiri báta að veiðunum. Þessi innspýting gæti þó haft möguleg áhrif sumarið 2018 og þá ekki síst ef verð standa í stað eða hækka (tafla 6).

Strandveiðar fjöldi 2

Allt frá fyrsta ári strandveiðanna hafa flestir bátar árlega verið á svæði A (mynd 1), enda er á þessu svæði að finna auðsóttustu handfæramið landsins, í Breiðafirði og á Vestfjörðum. Hlutfall strandveiðiflotans sem tilheyrir svæði A var í upphafi um 35% og hefur það hlutfall heldur farið hækkandi með árunum. Hlutfall strandveiðibáta sem tilheyra svæði B og C hefur verið svipað í gegnum árin eða á bilinu 21-23 % af heildarfjölda báta sem skráðir hafa verið á strandveiðar hverju sinni. Svæði D sker sig á hinn bóginn úr að því leyti að hlutfall báta á strandveiðum hefur farið lækkandi á þessu svæði frá því strandveiðarnar hófust. Hlutfall strandveiðibáta sem skráðir voru á svæði D fyrstu árin var þannig um 27% en er komið niður í 18% árið 2017 (mynd 1). Þetta má mögulega skýra með því að útgerðir hafi eftir árið 2010 í auknum mæli fært lögheimili sitt á önnur svæði og nær strandveiðimiðum.

strandveiðar fjöldi 3

Þekkt er að fiskimiðin eru misgjöful eftir árstíma og mynd 2 sýnir hvenær sóknin er mest á hverju svæði fyrir sig. Á svæðum A og D er mun hærra hlutfall útgerða sem hefja strandveiðar strax í maí, enda þorskurinn þá að ganga upp með vestanverðu landinu. Í byrjun maí er veiði á þeim svæðum mun auðveldari en á svæðum B og C en þetta snýst við í júlí og ágúst. Hlutfall þeirra sem stunda strandveiðar í júní og júlí er hærra en 85% á öllum svæðum og í kringum 95% á svæðum A, B og C í júlí. Hlutfall strandveiðibáta á svæði D minnkar mikið í ágúst enda veiði á því svæði lítil ef frá er talinn austasti hluti svæðisins sem er Höfn í Hornafirði (mynd 2).

Strandveiðum var ætlað að stuðla að nýliðun í greininni og vera leið fyrir þá sem voru utan við fiskveiðikerfið að komast inn í það. Á fyrstu árum strandveiðanna hófu strandveiðisjómenn í auknum mæli að búa báta sína á makríl. Veiði á makríl hófst í lok júlí og stangaðist þá á við hálft strandveiðitímabilið en margir bátar, aðallega á svæði D, hófu að stunda ólýmpískar makrílveiðar. Þessi viðbót gæti hafa átt þátt í lækkandi hlutfalli báta sem eingöngu stunduðu strandveiði upp úr árinu 2011. Því er óljóst hvort aukið hlutfall báta í krókaaflamarki sé til komið vegna brotfalls þeirra sem eingöngu sóttu í strandveiðar eða vegna þess að bátar sem byrjuðu í strandveiðum hafi fært sig yfir og í auknum mæli leigt eða keypt til sín kvóta.

Deila: