Aukin verðmæti frá Færeyjum
Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum í janúar skilaði 11,9 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 1,5 milljarða króna eða 14% miðað við sama mánuði í fyrra. Þrátt fyrir þessa miklu verðmætaaukningu dróst magnið saman um 4%.
Vöxturinn í verðmæti skýrist helst af aukningu í makríl, síld, laxi og þorski. Mestu verðmæti skilaði laxinn, 5,4 milljörðum íslenskra króna og jókst útflutningsverðmæti hans um 9%. Næst koma makríll, síld og kolmunni með 3,7 milljarða króna, sem er aukning um 54% og þriðji afurðaflokkurinn er botnfiskur, þorskur, ýsa, ufsi og fleira. Þar var verðmætið 1,7 milljarðar króna og jókst um 38%.
Þegar litið er á magnið fóru utan í janúar 40.359 tonn, sem er samdráttur um 4%. Af uppsjávarfiski voru seld 24.352 tonn, sem er 31% vöxtur. Útflutningur á botnfiski nam 3.675 tonnum sem er aukning um 27%. 13% samdráttur varð í útflutningi á laxi, en þrátt fyrir það jókst verðmætið. Þá minnkaði útflutningur annarra fisktegunda um 42% og varð alls 2.229 tonn. Sala á öðrum afurðum úr fiski, mest mjöl og lýsi, féll um 65% og varð alls 3.146 tonn.