Mesta nýsköpun í ísfisktogurum á Íslandi hingað til

Deila:

„Þessir nýju ísfisktogarar eru bylting í íslenskum sjávarútvegi – ekkert minna en það. Í mínum huga má líkja þessu saman við það þegar frystihúsa- og skuttogaravæðingin gjörbreytti sjávarútvegi á Íslandi á sínum tíma. Í sögunni hefur aldrei verið stigið jafn stórt skref hér á landi í nýsköpun í ísfisktogurum og meðhöndlun ferskfisks,“ segir Alfreð Tulinius, skipatæknifræðingur hjá Nautic ehf., hönnuður togarans Engeyjar RE og systurskipa sem væntanleg eru til HB Granda. Bæði hafa Engey RE og nýtt skip Útgerðarfélags Akureyrar, Kaldbakur EA, vakið athygli hjá almenningi fyrir skrokkhönnunina og kúlulaga stefni en hönnuðir skipanna tveggja hafa undanfarin ár fylgst að í þróun þessarar hugmyndafræði. Viðtal þetta við Alfreð birtist í Sóknarfæri.

Eingöngu kostir við nýja skrokklagið

„Samherjafrændur, þeir Þorsteinn Már og Kristján, eiga stóran þátt í því að hafa hvatt okkur til að halda áfram í þróun á perustefninu sem Bárður Hafsteinsson hjá Skipatækni kom fram með árið 1985. Það skipti miklu máli því menn eru ekki móttækilegir fyrir miklum útlitsbreytingum á skipum en ávinningur af þessum breytingum er verulegur,“ segir Alfreð. „Við þetta stefni og hönnun er enginn ókostur, hvorki í vindi og erfiðum aðstæðum, ekki fyrir stöðugleika og þannig má lengi telja. Í hönnuninni byggjum við upp flot í framskipinu hægar en áður, leyfum skipinu að fara aðeins meira í ölduna en það kemur líka hægar upp úr henni líka. Munurinn á þessu og hefðbundnu skipsformi þar sem þú ert með litla peru og útsleginn bóg þar fyrir ofan er sá að að hér fær Arkimedes að vinna sína vinnu hægt og rólega og skila skipinu upp úr öldunni. Í hinu tilfellinu erum við með minna særými neðarlega í skipinu, en ennþá meiri og brattari aukningu þegar ofar dregur og þá virkar það eins og Arkimedes á sterum, ef svo má segja. Og þá gerist það að skipin fara að berjast við sjóinn, kasta honum frá sér og í það fer mikil orka.

Þegar fólk horfir á skip sigla á móti öldu og kasta henni frá sér finnst mörgum það mjög tignarleg sjón en það þykir okkur skipahönnuðunum ekki glæsilegt. Við vitum að þá eru skip að tapa siglingarhraða og þurfa meiri orku en ella væri. Þegar við horfum á Engey RE í þessum aðstæðum þá fer sjórinn upp á stefnið og síðan hægt og rólega út af því. Þetta er það sem við vorum að sækjast eftir,“ útskýrir Alfreð.

Stærsti róbót í fiskiskipi á Íslandi

Verulegur ávinningur annar er af nýja skrokklaginu. Hægt er að staðsetja brúna hlutfallslega aftar á skipinu og viðhalda samt góðu útsýni framfyrir skipið, sem Alfreð segir mikinn kost. Meira rými verður framskips fyrir grandaravindur, geymslurými og fleira. Óhætt er að segja að á lykilsvæðum í Engey RE, vinnsluþilfari og lest, verði gjörbreyting frá því sem verið hefur í ísfisktogurum hér á landi hingað til. Tæknifyrirtækin Skaginn 3X, Kælismiðjan Frost og fleiri hafa þróað vinnslukerfi sem byggir á undirkælingu aflans, eða öðru nafni ofurkælingu. Fyrsta skipið til að reyna þessa tækni var togarinn Málmey en í stuttu máli er ferlið þannig að eftir slægingu og þvott á fiskinum fer hann í gegnum tegunda- og stærðargreiningu í myndbúnaði og þaðan í flokkun og þrepaskipta kælingu. Eftir síðasta þrep kælingarinnar fer aflinn í fiskiker, 300 kg skammtur í hvert, og áfram íslaus í lest þar sem haldið er -0,1 gráðu kulda í fiskholdinu.

Engey RE mun að því leyti verða í fararbroddi ísfisktogara í heiminum að í lest skipsins þarf engan starfsmann! Allur fiskur er settur í ker á vinnsluþilfari en hleðslustöðvarnar eru átta, sem eru mannaðar eftir þörfum. Fimm ker staflast í hverja hæð og þegar því er náð ýtir sjálfvirkur þjarkur kerastæðunni inn í sína hleðslurás í lestinni. Sama brautarkerfi nýtist síðan við löndun úr skipinu. Í heild komast 635 kör í lestina í Engey, eða sem nemur 190 tonnum af fiski. „Hugmyndafræðin að þessari nálgun á lestarkerfi kom upphaflega frá Guðmundi Hafsteinssyni hjá HB Granda en síðan hefur lausnin verið tæknilega útfærð í samstarfi við Skagann 3X ehf. sem bæði framleiðir búnaðinn og vinnur nú að uppsetningu hans. Lestarkerfið er stærsti róbót sem komið hefur verið fyrir í íslenskt fiskiskip hingað til,“ segir Alfreð.

Grunnur að betri afurðum

En þó tæknin sé áhugaverð sem slík er aðalatriðið að hún skili fiski til vinnslu sem er hráefni í hæsta gæðaflokki, enn betra en áður og með því er lagður grunnur að verðmætari afurðum til útflutnings. „Við erum alltaf að keppa við dauðastirðnunarferlið og í Engey RE erum við að vinna út frá lausn sem gerir kleift að skila vöru til neytenda erlendis enn ferskari en hægt var áður. Við lengjum þar með líftíma vörunnar – sem er mjög mikilvægt,“ segir Alfreð. Nefna má ýmsa aðra áhugaverða þætti í hönnun Engeyjar. Engar súlur eru á vinnsluþilfari né í lest og auðveldar það alla útfærslu búnaðar. Allar íbúðir eru bakborðsmegin í skipinu og það er gert til að skilja betur á milli vinnuumferðar og svefnsvæða til að viðhalda næði á hvíldarsvæði.

„Af nýjungum í vélbúnaði má nefna að hugbúnaður vinnur út frá bestunarforsendum hvað varðar togspil, skrúfu og aðalvél. Búnaðurinn stillir sig þannig sjálfur á bestu nýtingu orku eftir því hvort skipið er að veiðum eða á siglingu. Ég er lítið fyrir fullyrðingar um orkusparnað en get þó engu að síður sagt að í þessari tæknilausn felst umtalsverður orkusparnaður,“ segir Alfreð.

Íslenskt hugvit og lausnir

Nýjustu og bestu tækni er að finna í brú hvað varðar fiskileitar- og siglingatækni. Á skjávegg geta skipstjórnendur unnið með forritsmyndir eftir þörfum en þessi búnaður kemur frá Brimrún. Rafmagnsspil eru á skipinu frá Naust Marine ehf. „Tækninýjungar er að finna í Engey hvert sem litið er og eitt það ánægjulegasta við þetta verkefni er hversu stór þáttur íslenskra fyrirtækja er í búnaði og lausnum í skipinu,“ segir Alfreð Tulinius.

Deila: