Uppsjávarfiskurinn stendur undir aukningunni
Verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Færeyjum fyrstu tvo mánuði ársins var tæpir 24 milljarðar íslenskra króna. Það er 2,9 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Uppsjávarfisktegundirnar makríll og síld standa undir aukningunni, en það eru einu vöruflokkarnir þar sem um vöxt er að ræða.
Sé áfram litið á verðmætið, skiluðu þorskur, ufsi og ýsa samtals 3,2 milljörðum íslenskra króna á umræddu tímabili í ár. Það er samdráttur um 12%. Útflutningsverðmæti makríls, síldar og kolmunna var um 8 milljarðar króna, sem er nánast tvöföldun frá því í fyrra. Eldislaxinn skilaði eins og áður mestu verðmæti einstakra afurðaflokka eða 9,2 milljörðum króna. Það er aukning um 6%.
Alls fóru utan 89.019 tonn af sjávarafurðum á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Það er aukning um rúm 6.000 tonn, eða 7%. Uppistaðan í því er uppsjávarfiskurinn, eða 57.291 tonn. Það er vöxtur um 20.601 tonn eða 56%. Þá kemur laxinn með 8.853 tonn sem er 1.709 tonn samdráttur eða 16%. Loks kemur botnfiskurinn, þorskur, ýsa og ufsi með 6.855 tonn, sem er fall um 1.002 tonn eða 13%.
Þegar verðmæti og magn er borið saman má sjá að vermætisaukningin í uppsjávarfiskinum er mun meiri en magnaukningin. Það bendir til annaðhvort hærra verðs eða hagstæðari samsetningar, það er hærra hlutfalls af dýrari tegundum eins og makríl og síld en minna af kolmunna, sem er ódýrari afurð. Verðmæti laxins hækkar um 6% þrátt fyrir 16% samdrátt í magni og bendir það til umtalsverðrar verðhækkunar. Í botnfiskinum er samdrátturinn í magni og verðmæti hlutfallslega nánast sá sami og má því draga þá ályktun að verða hafi að mestu leyti staðið í stað.