Vilhelm með mesta úthlutun í makríl
Vilhelm Þorsteinsson EA er með langmestan úthlutaðan makrílkvóta á komandi vertíð, 13.820 tonn, samkvæmt úthlutun Fiskistofu. Alls fá 285 skip og bátar úthlutað kvóta, samtals 166. 581 tonni, að teknu tilliti til færslna frá síðasta ári. Mestar veiðiheimildir eru í skipaflokknum aflareynsluskip, 122.629 tonn, vinnsluskip eru með 28.515 tonn, skip án vinnslu með 7.436 og smábátar með 6.983 tonn.
Skip með aflareynslu eru 21 og er Vilhelm Þorsteinsson EA þar með mesta úthlutun eins og áður sagði, 13.820 tonn. Huginn VE er með 11.082 tonna úthlutun í öðru sætinu og í því þriðja er Víkingur AK með 8.323 tonn.
Vinnsluskipin eru 22 og þar er Brimnes með mesta úthlutun, 3.070 tonn. Þrjú næstu skip eru öll með 2.110 tonna úthlutun og eru það Sigurbjörg ÓF, Vigri RE og Arnar HU.
Í flokki skipa án vinnslu eru 64 skip. Mesta úthlutun þar er Frosti ÞH með, 645 tonn og næst kemur Steini Sigvalda GK með 243 tonn.
Alls fá 178 smábátar úthlutun í ár. Að teknu tilliti til færslu heimilda frá næsta ári er Fjóla GK með mesta úthlutun, 371 tonn. Næst kemur Dögg SU með 305 tonn og þriðji hæsti báturinn er Siggi Bessa með 294 tonn.
Eins og fyrri ár má gera ráð fyrir umtalsverðum færslum heimilda milli skipa, en þær hafa ekki verið skráðar enn.
Fiskistofa vill vekja athygli á að ekki er heimilt að hefja makrílveiðar nema að fengnu sérstöku veiðileyfi hjá Fiskistofu. Umsóknir um veiðileyfi skulu gerðar í UGGA, upplýsingagátt Fiskistofu. Opnað verður fyrir umsóknir um makrílveiðileyfi mánudaginn 24. apríl 2017 klukkan 8:00. Samkvæmt reglugerð er mögulegt að sækja um leyfi til loka veiðitímabilsins 31. desember 2017.
Til að auka gagnsæi við makrílúthlutun hefur Fiskistofa tekið saman upplýsingar um úthlutunina og flutning veiðireynslu milli skipa. Skjalið sýnir úthlutunina fyrir árið 2017 og frá hvaða skipi veiðireynslan er kominn. Þessar upplýsingar eru birtar með fyrirvara um villur. Hægt er að opna skjalið hér .