Lúða í mangósósu

Deila:

Enn erum við með lúðuna, að þessu sinni í mangósósu. Þetta er skemmtileg tilbreyting og sósan á virkilega vel við lúðuna. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Innihald:

Mangósósan:

1 bolli ferskt vel þroskað mangó flysjað og skorið í teninga

½ bolli perusafi eða greipsafi

¼ rjómi, en einnig má nota þykka kókosmjólk

1 msk. hunang

safi úr einni límónu

sjávarsalt

Fiskurinn:

4 bitar um 180g af lúðu, roð- og beinlaust

½ bolli ristaðar og saltaðar macadamia hnetur

½ bolli brauðraspur

1 egg

1 msk. ólífuolía

1 knippi af graslauk, saxað til skrauts

sjávarsalt

svartur pipar

Aðferðin:

Mangósósan:

Flysjið mangóið og skerið í teninga. Setjið mangóið í pott á miðlungshita. Bætið perusafanum út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í 15 mínútur, eða þar til mangóið er orðið mjúkt og safinn soðinn niður um helming. Bætið þá rjómanum út í og látið malla í 5 mínútur. Takið pottinn af hitanum og bætið hunangi út í. Sigtið sósuna og bætið límónusafanum út í smakkið til með salti.

Hellið sósunni aftur í pottinn og hitið áður en hún er borin fram.

Lúðan:

Hitið ofninn í 180°C og setjið ofnhilluna í miðjan ofninn. Setjið hneturnar og brauðraspinn í matvinnsluvél og malið þar til blandan er hæfilega hökkuð. Ef blandan er möluð of mikið verður hún að hnetusmjöri. Sláið eggið til með smá mjólk í grunnri skál. Kryddið fiskbitana með salti og pipar.

Dýfið fiskbitunum í eggið og hjúpið þá síðan vandlega í hnetublöndunni. Setjið olíuna í eldfast mót og hitið í ofninum. Leggið fiskbitana í mótið, þegar það er orðið heitt. Bakið fiskinn þar til hann verður fallega gullinn, 5-7 mínútur á hvorri hlið, eða lengur ef bitarnir eru þykkir.

Takið fjóra diska og jafnið sósunni á þá. Leggið lúðubitana ofan á og dreifið graslauknum yfir. Berið fram með hrísgrjónum og fersku salati að eigin vali.

 

Deila: