Örugglega hið besta hráefni
,,Það hefur verið fínasta veiði. Við vorum að ljúka við að dæla úr trollinu eftir tíu tíma hol og aflinn var um 450 tonn,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, í samtali á heimasíðu HB Granda, en skipið er nú á kolmunnaveiðum sunnarlega í færeyskri lögsögu.
Víkingur var kominn á miðin síðdegis sl. sunnudag og er rætt var við Albert í gær var áhöfnin búin að taka þrjú hol. Aflinn var kominn í rúmlega 1.300 tonn eða um helming þess magns sem rými er fyrir í tönkum skipsins miðað við nauðsynlega kælingu á aflanum.
,,Kolmunninn virðist vera heldur fyrr á ferðinni í ár en í fyrra byrjuðum við ekki veiðar fyrr en 10. eða 11. apríl. Þetta er ágætis fiskur af góðri stærð og örugglega hið besta hráefni,“ segir Albert en auk íslenskra skipa eru nú mörg rússnesk skip á kolmunnamiðunum auk færeyskra skipa. Eitt norskt skip er sömuleiðis á slóðinni.
,,Það var austan kaldi á svæðinu þegar við komum og einnig í gær en í dag er veðrið fínt. Maður finnur að sumarið er handan við hornið,“ segir Albert Sveinsson.