Fínasta kolmunnaveiði
Kolmunnaveiðin fer vel af stað í færeysku lögsögunni. Bjarni Ólafsson fékk 580 tonn í fyrsta holi en togað var í 13 tíma. Hákon EA fékk um 500 tonn eftir 16 tíma og Börkur NK fékk 600 tonn eftir 15 tíma. Hér er um að ræða fínustu veiði og það tekur væntanlega ekki langan tíma að fá í skipin ef framhald verður á henni.
Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki eftir hádegið í gær og var hann hinn ánægðasti. „Þetta byrjar vel og heldur fyrr en í fyrra. Þá voru fyrstu bátar að byrja að toga 9. og 10. apríl. Fyrsta skipið á miðin núna var Hoffell SU og þeir fylltu í fjórum holum og lögðu af stað í land í nótt. Við vorum að klára að dæla úr öðru holinu okkar, togað var í 12 tíma og það gaf 460 tonn þannig að við erum komnir með tæp 1.100 tonn. Það er ekkert sérstaklega mikið að sjá hérna, en það er ágætis líf á kafla og það gefur vel í trollið. Menn hljóta að vera ánægðir með þessa byrjun á veiðunum,“ sagði Hjörvar.