Á sjó að mestu leyti í sjötíu ár

Deila:

Hann er 87 ára gamall og endurnýjaði skipstjórnarréttindi sín í fyrra til að geta haldið siglingum áfram. Hann byrjaði til sjós sem dekksdrengur í  Noregi. Síðan lá leiðin vestur um haf og lengi sigldi hann sem stýrimaður á bananabátum milli Karabíska hafsins og New York. Síðari árin hefur hann verið í afleysingum sem stýrimaður og skipstjóri á ýmsum skipum, sótt ný skip út og farið með önnur í brotajárn. Hann heitir Markús Alexandersson og bíður rólegur eftir næstu verkefnum, þó kennitalan geti þó vafist fyrir einhverjum. Ægir ræddi við hann um ferilinn og fékk nokkrar sjómannasögur með.

Markús hefur safnað að sér mörgum gömlum munum sem tengjast siglingum og hefur sett upp safn af þeim í sólstofu við heimili sitt.

„Ég byrjaði til sjós í Noregi 1952, 17 ára gamall. Hér heima var mikið atvinnuleysi og erfitt að fá vinnu. Ég ætlaði aldrei að verða sjómaður. Mig langaði til að verða vélvirki. Ég komst hvergi að, það var allt í gegnum kunningsskap og klíku. Ég dreif mig því til Noregs og þá lærði ég að það var hægt að lifa lífinu fyrir utan klíkuskap. Ég byrjaði sem dekkdrengur á 16.000 tonna tankara og var þar fyrsta árið mitt til sjós. Ég kom svo heim eftir fyrstu tvö árin mín úti, vorið 1954, 19 ára gamall. Þá var ég búinn að sigla um alla Evrópu og Miðjarðarhafið, vestur til Ameríku og austur til Japans. Það þykir ekki merkilegt í dag en þá var nú ekki mikið um túrista. Það var fínt að vera hjá Norðmönnunum. Þetta voru fjórar tröppur í metorðastiganum hjá hásetum.  Það var dekksdrengur, svo jungman, lettmatros og matros. Eftir að eg var á tankarnum, var eg mest á línufrökturum, en þá er siglt eftir áætlun.  Sum skipanna tóku líka farþega. Þetta voru mjög flott skip og gengu 18 mílur. Ég var að sigla með Norðmönnunum alveg frá 1952 til 1958,“ segir Markús um upphafið

Fyrsta skipið.

Var á sykurskipum og bananabátum

„Friðrik bróðir minn kláraði Stýrimannaskólann 1956 og fór til Noregs og byrjaði sem þriðji stýrimaður á norsku skipi í Bandaríkjunum og fór svo þaðan til United Fruit Company á bananabátana. Ég fékk svo bréf frá honum meðan ég var ennþá háseti hjá Norðmönnunum. Hann sagðist vera orðinn leiður á að hafa mig sem hásetablók hjá Norðmönnum  og  væri búinn að ráða mig sem þriðja stýrimann, hjá UF.Co. þegar ég væri búinn með skólann. Ég skellti mér því heim 1958 og og komst framhjá fyrsta bekk með því að fara í hálfsmánaðar undirbúningsdeild til að taka próf í íslensku, dönsku, ensku og reikningi. Þetta hafðist og ég komst beint upp í annan bekk og útskrifaðist 11. maí 1960. Tveimur vikum síðar flýg ég til New York og er munstraður um borð í eitt af sykurskipunum, sem United Fruits átti. Þetta voru fimm skip eins og Tröllafoss var á sínum tíma. 30. maí er ég kominn um borð þar. Ég var heppinn því dallurinn fór í klössun. Þá var ég ásamt dönskum fyrsta stýrimanni, sem var líka um borð, sendur um borð í bananabát. Það var mikið betra að vera á þeim. Eftir það var ég bara á þeim.“

Skipin voru byggð sem frystiskip og með lestar sem hægt var að kæla niður í 30 gráðu frost. En bananarnir voru á einum sólarhring kældir niður í 13 til 14 gráður og svo er þeirri kælingu haldið þar meðan á flutningunum stendur.

Gangmikil skip og flottur aðbúnaður

„Við vorum þá að sigla frá Mið-Ameríkuríkjum, fórum til Hondúras, Gvatemala, Kólumbíu, Panama, Ekvador og Kosta Ríka Kyrrahafsmegin og nær eingöngu til Bandaríkjanna. Ef við á hinn bóginn sigldum til Evrópu lestuðum við oft á Jamaíka. Það var enskt yfirráðasvæði og við fengum svona tvo til þrjá túra á ári og það þótti okkur mjög skemmtileg tilbreyting, en skipstjórunum ekki. Þeir kærðu sig ekkert um að sigla yfir Atlantshafið, um hávetur. En þetta voru gangmikil skip og flottur aðbúnaður um borð þó við sigldum undir fána Hondúras. Við gátum tekið 12 farþega og maturinn meiri háttar, hvernig við vildum hafa steikina steikta og eggin á morgnana. Þetta var fínt líf. Búið að stjana við mann í fimm ár. Ég náði að komast upp í fyrsta stýrimanninn, en það var pólitík í þessu. Kastró komst til valda 1959 og þeir voru orðnir hræddir um að sumt af þessum Mið-Ameríkuríkjum væru að fara undir kommúnismann. Gömlu skipin fóru eitt af öðru í brotajárn  og nýju skipin sem voru byggð í staðinn, fóru undir aðra fána. Það voru 17 skip í þessu þegar ég byrjaði og 11 þegar ég hætti. Ég byrjaði sem þriðji stýrimaður og varð síðan annar og náði að leysa af sem fyrsti. En lengra komst maður ekki. Ég hætti því í þessum siglingum 1965.“

Slökknaði á Manhattan

Eftir það var Markús að sigla hér heima, meðal annars fyrir Eimskip á ms. Selfossi, sem var rosalega flott skip, systurskip Brúarfoss, en Eimskip lét byggja fyrir sig bæði skipin. Þeir sigldu á New York og skipstjóri var Helgi Pétursson og fyrsti stýrimaður var Þór Elísson, mjög þekktur skipstjóri síðar hjá Eimskip. „Það sem var mjög sérstakt í þessum túr var að rafmagnið fór af norðurríkjum Bandaríkjanna. Það bara slökknaði á Manhattan. Það var svolítið sérstakt, en þeir voru straumlausir alveg í sólarhring.“

„Svo var ég hjá Hafskip um tíma en fór svo í land og tók við fjölskyldufyrirtæki, Rjómaísgerðinni, sem pabbi var með. Ég var þar í tvö ár og reif það upp. Ég fór út úr því og var í veitingarekstri hérna í Reykjavík. Ég var í landi í átta ár, en fór þá aftur til sjós.

Með vopn til Dar Es Salam

Ég byrjaði þá á því að leysa af á gamla Herjólfi, sem stýrimaður og 1974 fór ég til Skapta Skúla á Hvalsnesið, sem var nýtt fragtskip.  Ég var þar sem fyrsti stýrimaður og Gunnar Kristinsson var skipstjóri, en ég leysti hann af í fríum. Við vorum bara í leigu í Norðursjónum og komum ekkert heim til Íslands. Svo keypti hann annað skip, Frendo Simbi og við fórum með vopnafarm niður til Dar ES Salam í Tansaníu og upp til Dubay, Í Persaflóa 1975. Það stóð svo til að við færum að sigla milli Flórída og eyjanna fyrir austan Flórídaskagann, en það varð aldrei úr því. Svo keypti Guðmundur Ásgeirsson í Nesskip, Hvalsnesið, og þá hét það Vesturland og ég leysti af þar. Síðan fór það til Pálma Pálssonar í Skipafélaginu Nes, í Hafnarfirði og þá hét það Valur. Við Guðmundur erum bekkjarbræður úr Stýrimannaskólanum og vorum saman á togurum og hjá Hafskip.

Síðan hef ég verið að þvælast hér og þar. Var um tíma með dæluskipið Perlu. Steypustöðvarnar keyptu það á sínum tíma og ég var með það þangað til að Björgun keypti skipið. Þá fór ég að taka siglingar annars staðar og hef verið mjög víða, oft í afleysingum. Ég var lengi hjá Pálma i Nesi eða frá 1980, er hjá þeim með hléum, þangað til Haukurinn er seldur til Noregs 1999 og ég var seldur með. Ég fór svo með hann í Karabískahafið fyrir Norska reiðarann, Kare Gangsö. Stýrimaður var Ásgeir Ásgeirsson.Við vorum eitt ár í Karabíska hafinu. Eftir það vorum við svo að sigla hjá þessum reiðara í Noregi,  ég og  Ásgeir. Vorum einhver ár í því.

Sótti Helgu til Tævan

Svo kom hingað flutningaskip, sem hét Axel og var gert út frá Akureyri af Ara Jónssyni og ég tók þar afleysingar um borð sem skipstjóri. Svo var ég reddari í Reykjavík fyrir þá þegar ég var á milli túra. Axel var mikið í flutningum á loðdýrafóðri frá Sandgerði til Danmerkur.Til baka var flutt almenn fragt sem losuð var beint á hafnir a ströndinni. Þetta var rosalega flott skip og gott að vera þar um borð. Danska ríkið byggði tvö svona skip fyrir Grænland. Þau voru eitthvað lítið notuð á Grænlandi og síðan seld. Systurskip Axels fórst fyrir norðan Færeyjar. Þeir voru með steypustyrktarjárn uppi á millidekkinu og sjóbjuggu það ekki nógu vel. Járnið fór því yfir á aðra síðuna og velti skipinu og helmingurinn af áhöfninni fórst.

Amelia Rose

Ég kom svo á sínum tíma með Helgu RE frá Tævan 2009 fyrir Ármann Ármannsson. Svo sótti ég lystiskekkjuna Amelíu Rose til Mexíkó en það er fallegasta skip á Íslandi, allt útskorið úr harðviði innandyra og traustlega byggt. Ég fór með snekkjuna í gegnum Panamaskurðinn, en það var svo klassað í Flórída. Svo fórum við aftur út og sóttum skipið þangað og fórum upp til St. Johns í Nýfundnalandi og tókum olíu þar. Það var 2014. Skipið er nýtt í ferðamennskunni hérna við landið. 2016 förum við með Jón Vídalín til Írans, ég og Ásgeir Ásgeirson, stýrimaður og Ómar Haraldsson vélstjóri.

Kokklaust skip er sálarlaust skip

Í fyrra fórum við með gamla Sturlaug Böðvarsson sem þá hét Mars fyrir Skipaþjónustu Íslands í brotajárn til Ghent í Belgíu. Það var nú svolítið sérstakt, því ég hafði farið með bananaskip sem hét Toltec í brotjárn 1961 til Ghent í Belgíu, en þá var það 32 ára gamalt. Nákvæmlega 60 árum seinna förum við með Marsinn.  Þegar við erum stundum að fara með þessa litlu báta hérna á milli er lágmarks mannskapur fjórir, en ef við ætlum að fara að kokka eitthvað fer allt í vitleysu. Það var fínt þegar við komum með Helguna frá Tævan, Þórarinn vélstjóri var eftirlitsmaður með smíðinni úti og Elísabet konan hans kom með sem kokkur. Það var algjör lúxus. Kokkslaust skip er sálarlaust skip. Stýrimaður var Ásgeir Ásgeirsson. Annar vélstjóri var Hjálmar. Svo var með okkur Skúli Árnason, sem var nokkurs konar blaðafulltrúi. Við vorum því sex um borð. Þetta var rosalega fínn túr en mig minnir að við höfum verið 56 daga á leiðinni.

Svo fór ég með togarann Jessicu, sem var lítill þýskur togari úr Njarðvík í endaðan júní fyrra til Las Palmas á Kanaríeyjum. Ég fór svo í Slysavarnaskólann í haust og endurnýjaði skipstjóraréttindin mín til fimm ára. Ég er svo alltaf tilbúinn í verkefni, en menn verða náttúrulega að sjá mann. Það gengur ekkert að segja kennitöluna í gegnum síma, hún sýnir bara háan aldur. Það verður ábyggilega ekki mikið að gera því hver vill láta svona gamlan mann sigla fyrir sig. En ég er í alveg 100% standi og tilbúinn í hvað sem er, en helst langsiglingar. Ég nenni ekkert að vera að sigla hérna heima. Ég þarf það ekki út af peningum. Ég hef bara gaman af því að fara á milli landa. Helst vildi ég komast til Ástralíu og Nýja Sjálands. Tveggja mánaða túr. Það væri alveg stórkostlegt og taka Ásgeir vin minn með. Hann er svo geðgóður að það er hægt að sigla með honum á heimsemda,“ segir Markús Alexandersson.

Mama Cita á peysufötunum

Ég fer út 1960 á bananabáta og ein aðal bananahöfnin var Puerto Cortes í Hondúras, Karabíamegin, en Hondúras á smáspildu Kyrrhafsmegin. Þarna voru banabátar á hverjum degi að lesta og mikið að gera. Þarna voru náttúrulega barir með jukebox og sætar stelpur og hægt að skemmta sér. Aðalstaðurinn hét Mama Cita. Og Mama Cita, hún sat alltaf með prjónana sína fyrir innan barinn í nokkurs konar peysufötum. Hún minnti mann á Helgu sem rak Röðul hérna í gamladaga. Hún var alltaf í peysufötum. Hún var oft niðri fyrir utan fatageymsluna að taka á móti gestum. Mama Cita minnti svo mikið á Helgu á Röðli. Við komum oft þarna á barinn, en maður var kominn á frívakt um hádegi sem þriðji stýrimaður. Þá fór maður og fékk sér glas og heilsaði upp á stelpurnar og að spila eitthvað á Jukeboxið. Þá var Pat Boone að syngja lagið Swallows, en Raggi Bjarna var þá búinn að syngja þetta heima og gefa út á plötu 1960 undir heitinu, Senn fer vorið a vængjum yfir flóann. Pat Boone söng þetta auðvitað á ensku, en mér fannst Raggi syngja betur en Pat Boone. Við Raggi vorum jafnaldrar og góðir kunningjar.

Einu sinni sat ég þarna inni og þá kemur einn Hondúras gæi vel slompaður og hlammar sér við hliðina á mér. Hann tekur svo upp sexhleypuna skellti henni á borðið og pantaði drykk. Svo fer hann að taka kúlurnar úr og þrífa byssuna, ég held þetta hafi verið 32 kalíber Colt. Þegar hann hafði þrifið byssuna hlóð hann hana aftur og brosti til mín. Svo fór hann út og skaut tveimur kúlum upp í loftið. Það  kippti enginn sér upp við það. Það voru allir meira og minna með byssur þarna í Mið-Ameríku. Maður reyndi bara að falla inn í umhverfið.

Eldri konu komið til bjargar

Friðrik bróðir var þarna fyrsti stýrimaður á bananabát. Eitt kvöldið í New Orleans, er bankað á dyrnar hjá honum, hann opnar og þar standa tveir lögreglumenn i fullu júníformi. Fyrsta sem Friðrik hugsar er, hvern fjandann hef ég nú gert af mer. Þeir spyrja hvort hann sé Íslendingur og tali íslensku. Hann játar því.  Þeir segjast vera í vandaræðum og biðja hann um aðstoð. Þeir séu með íslenska eldri konu, sem tali bara íslensku. Hún hafi lent í alvarlegu máli og sé á sjúkrahúsi. Þeir báðu hann  þá að koma með sér og túlka svo það komi í ljós hvað hafi skeð.

Hann fer að sjálfsögðu með þeim og þegar hann ávarpar hana á íslensku kastar hún sér um hálsinn á honum hágrátandi. Þá er það svoleiðis dóttir hennar hafði gifts Bandaríkjamanni af Vellinum og flutt með honum til Ameríku.  Þeir byrja 18 ára í hernum og fara á eftirlaun undir fertugt. Þegar að því kemur hafa þeir aldrei unnið neitt nema hermennsku og lenda því oft í vandræðum í lífinu að hermennsku lokinni. Þetta var svo komið út í allnokkra óreglu hjá þeim hjónum. Svo kemur mamma hennar í heimsókn og ástandið kemur í ljós. Sú gamla er með sterkar svefntöflur sem hún hafði með sér að heiman. Tengdasonurinn kemst í svefntöflurnar og gleypir pakkann og deyr. Dóttirin varð alveg örvingluð og hleypur bara út í buskann. Lögreglan kemur svo á staðinn og þá er sú gamla ein til frásagnar, en kann enga ensku. Lögreglan fann svefntöflupakkann og skildi ekkert í því að hún geti verið með svona sterkar svefntöflur, því í Bandaríkjunum fást aðeins daufar svefnstöflur. Friðrik gat leyst úr þessu öllu saman en vissi lítið um það hvaða fólk þetta var. Það er ýmislegt sem menn geta lent í.

Rotaði stýrimanninn

Friðrik, Jónas og Haukur

Jónas Þorsteinsson frá Hveragerði var í langan tíma lóðs á Panamaskurðinum, eða þar til skurðurinn var yfirtekinn af Panamabúum. Hann var þá að fara á eftirlaun og þau hjónin bjuggu í  Gulf Breeze í Flórída. En hann var áður á bananabátunum. Friðrik bróðir, annar stýrimaður, Jónas, fyrsti stýrimaður og Haukur Magnússon þriðji stýrimaður voru saman á skipi 1957. Einu sinni eru þeir í höfn í Hondúras Kyrrahafsmegin. Höfnin er inni í lítilli vík eins og frá Sundahöfn og yfir. Haukur var á vaktinni um borð en Friðrik og Jónas fara á ströndina og eru að synda þar. Á ströndinni er sölutjald þar sem seldur er bjór og fleira. Þeir fara þangað að fá sér bjór og standa þar og Friðrik er með handklæði yfir öxlina og þá kemur þarna skipshöfn af mexíkóskum túnfiskbát, hörku naglar. Stýrimaðurinn fer fyrir liðinu og hann kippir handklæðinu af Friðrik og fer að þurrka sér í framan Friðrik snýr sér við og kippir af honum handklæðinu, setur það aftur á öxlina og snýr bakinu í hann. Hinn kippir handklæðinu aftur, en þá snýr Friðrik sér eldsnöggt við og rotar hann. Þá verður uppi fótur og fit hjá Mexíkóunum. Einn hleypur í burtu og kemur svo aftur með skipstjórann. Þá eru þeir Friðrik og Jónas búnir að ákveða að að verði eitthvert hnífamál úr þessu, ætla þeir að stinga sér í sjóinn og synda yfir í skipið, sem var hinu megin við víkina, þrátt fyrir að þarna voru hákarlar á sveimi. Þeir vildu frekar taka séns á hákörlunum en hnífum Mexíkóanna, enda báðir góðir sundmenn. Jónas gat nú kjaftað sig út úr alls konar málum og vandræðum. Þegar skipstjórinn kemur og spyr hversvegna sé búið að rota stýrimanninn hans, sem reyndar rankaði fljótlega við sér,  segir Jónas honum bara söguna eins og hún var og þá segir skipstjórinn að þetta hafi verið mikill dónaskapur af sínum manni og því bara rétt að rota hann. Þá var bara skálað yfir því og svo drukku þeir bara dús með öllum Mexíkóunum.

Viðtalið birtist fyrst í nýjasta tölublaði Sóknarfæris. Blaðið er hægt að lesa á slóðinni https://ritform.is/

Deila: