WFF fagnar 25 ára afmæli

Deila:

Alþjóðasamtök strandveiðimanna og fiskverkafólks, WFF, fögnuðu Í gær 25 ára afmæli sínu. Samtökin voru stofnuð í Nýju-Dehlí á Indlandi hinn 21. nóvember 1997.  Landssamband smábátaeigenda var einn stofnaðila. Nokkrum árum síðar fékk þessi dagsetning viðurkenningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem Alþjóðadagur fiskveiða (World Fisheries Day). Um þennan áfanga er fjallað á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

„Dagurinn er helgaður baráttu smábátaveiðimanna, frumbyggjaveiða og fiskverkafólks fyrir grundvallarréttindum sínum, bæði hvað varðar aðgengi að fiskimiðum og rétti þeirra innan alþjóðlegra laga og reglna.

Íslenskir smábátaeigendur og sjómenn finna sannarlega fyrir óréttlæti og rangindum í sinn garð, en staða félaga þeirra um víða veröld er margfalt verri og í mörgum tilfellum svo lygileg að erfitt er að trúa.

Eftir stofnun samtakanna hefur ýmislegt þokast í rétta átt, þó hægt fari.

WFF fékk fljótlega eftir stofnun stöðu áheyrnarfulltrúa með tillögurétt á vettvangi FAO á svokölluðum COFI fundum, sem er stærsti fundur heims um málefni sjávarútvegs. Þessi fundur er haldinn er á tveggja ára fresti á vegum FAO í höfuðstöðvum þess í Róm.

Eitt af því sem WFF hefur skorið sig úr frá fjölmörgum alþjóðlegum félagasamtökum er áhersla á jafnrétti kynjanna. Þetta endurspeglast m.a. í því að það er skylda samkvæmt stofnsamningi að þessa jafnræðis sé gætt varðandi aðalfundi og ráðstefnur.  Nú er unnið að því að halda aðalfund WFF á næsta ári. Síðasti aðalfundur WFF var haldinn í strandbænum Salinas í Ecuador árið 2017.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust að framkvæmdastjóri samtakanna, Margaret Nagato frá Uganda var heiðruð af FAO fyrir störf sín.

Margaret er svo sannarlega vel að þessum heiðri komin. Heiðarleg, vinnusöm og fylgin sér.

Samkvæmt stofnsamningi WFF eru tveir formenn á hverjum tíma. Sem stendur eru formennirnir Cairo Laguna frá Nikaragua og Editrudith Lukanga frá Kenya.

Formaður LS situr í stjórn og framkvæmdaráði WFF og hefur gert frá stofndegi.“
Alþjóðasamtök strandveiðimanna og fiskverkafólks

 

Deila: