Lýsa ánægju með frumvarp um lækkun veiðigjalda
Landssamband smábátaeigenda lýsir ánægju sinni með „að loksins skuli vera komið fram frumvarp sem kemur til móts við gríðarlegan rekstrarvanda smábátaútgerðarinnar. Það verður þó ekki hjá því komist að gagnrýna harðlega að frumvarp í þessa veru hafi ekki fyrir löngu komið til kasta Alþingis.“
Svo segir á heimasíðu sambandsins. Þar segir ennfremur: „Ekki síst þar sem LS hóf að vekja athygli á aðsteðjandi vanda í mars 2017 þegar sýnt var að veiðigjöld í þorski og ýsu svo dæmi sé tekið mundu hækka yfir 100% og það ofan í fiskverð sem átti engan möguleika á að skila viðunandi afkomu.
Útgerð smábáta hefur sjaldan átt jafn erfitt uppdráttar og á yfirstandandi fiskveiðiári. Veiðigjald í þorski og ýsu hækkaði yfir 100% eins og áður er nefnt og útgerðir sem tóku lán til kaupa á aflaheimildum misstu afslátt sem veittur hafði verið vegna himinhárra vaxtagreiðslna. Vegna þessa margfaldaðist veiðigjaldið og hafði í för með sér gríðarlega erfiðleika.
Nú fer frumvarpið til umræðu í þinginu og mun LS gera kröfu um sérstakan viðbótarafslátt til útgerða smábáta.“
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.