Ný-sköpun-ný-tengsl

Deila:

Tengslaviðburðurinn NÝ-SKÖPUN-NÝ-TENGSL fór fram í tíunda skipti í þann 22. maí. Í ár fór fundurinn fram í höfuðstöðvum Marel þar sem þær Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri og Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, yfirmaður vöruþróunar á Íslandi og Bretlandi, tóku á móti gestum.

Viðskiptaráð og Icelandic Startups hafa staðið að viðburðinum frá árinu 2009 með það að markmiði að leiða saman reynslumikla stjórnendur og fulltrúa vaxandi sprotafyrirtækja og efna til ánægjulegrar kvöldstundar í skemmtilegu umhverfi.

„Með stöðuga nýsköpun að leiðarljósi síðustu 35 ár, hefur Marel umbreyst úr sprotafyrirtæki í alþjóðlegt hátæknifyrirtæki. Árlega fjárfestir Marel um 6% af tekjum félagsins í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Árið 2017 nam sú fjárfesting 58 milljónum evra eða um 7 milljörðum íslenskra króna. Í dag er Marel í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúkling, kjöti og fisk,“ segir meðal annars á heimasíðu Marel.

„Öll fyrirtæki byrja sem hugmynd. Þegar hjólin fara að snúast þurfa frumkvöðlar að taka fjölmargar ákvarðanir sem snúa að þáttum á borð við stefnumótun, verkferla, ráðningu starfsmanna, söluleiðir, sókn á erlenda markaði og svo framvegis. Það er því gríðarlega dýrmætt að fá tækifæri til að leita í reynslubanka fremstu stjórnenda landsins sem eru tilbúnir að miðla þekkingu, reynslu og tengslaneti,“ segirSalóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kom inn á mikilvægi nýsköpunar fyrir samkeppnishæfni landsins og ítrekaði ánægju ráðsins með viðburðinn og samstarfið við Icelandic Startups. Viðburðurinn hefur leitt af sér gríðarlega mikilvæg tengsl fyrir hvort um sig rótgróin fyrirtæki sem vilja sífellt endurnýja sig og sprotafyrirtæki sem þurfa breitt bakland þegar verið er að taka sín fyrstu skref.

 

Deila: