Makríll klekst út, vex og dafnar á íslensku hafsvæði

Deila:

Ný rannsókn Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands sýnir í fyrsta skipti fram á að makríll klekst út, vex og dafnar á íslensku hafsvæði þó vissulega sé aðeins um lítið brot af heildarhrygningu makríls að ræða. Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Háskóla Íslands, hefur á undanförnum árum unnið að rannsóknum á útbreiðslu hrygningar makríls og uppruna makrílseiða á íslensku hafsvæði og búið er að taka saman niðurstöður í skýrslu.

Í þessari rannsókn var stuðst við niðurstöður úr fjölþjóðlegum rannsóknarleiðöngrum á vegum Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) á hrygningu makríls í Norðaustur Atlantshafi árin 2010 og 2013. Hafstraumar við suðurströnd landsins voru kortlagðir með aðstoð hafstraumalíkansins CODE sem þróað hefur verið við Háskóla Íslands. Makrílseiði af Íslandsmiðum voru aldursgreind og líkt var eftir reki ungviðis frá veiðisvæði að klak- og hrygningarsvæði með því að reikna út rek með straumum aftur á bak í tíma. Þannig var, ásamt fyrirliggjandi upplýsingum um hrygningu makríls við Ísland, leiddar líkur að því hvar makrílungviðið klaktist út. Þessi rannsókn sýnir í fyrsta skipti fram á að makríll klekst út, vex og dafnar á íslensku hafsvæði þó vissulega sé aðeins um lítið brot af heildarhrygningu makríls að ræða.

Á undanförnum árum hefur makríll gengið bæði norðar og vestar en áður. Samfara því hefur útbreiðsla og magn makríls á Íslandsmiðum aukist verulega og er það talið tengjast hlýnun sjávar og þéttleikaháðum áhrifum samfara stækkun stofnsins. Beinar veiðar hófust hér við land árið 2007. Makríllinn byrjar að hrygna í febrúar við strendur Spánar og Portúgals og síðan flyst hrygningin smám saman norður með Evrópu fram á vor með hækkandi hitastigi. Hrygningin nær venjulega hámarki í apríl-maí úti fyrir vesturströnd Írlands og suðvesturströnd Englands, en á sama tíma er töluverð en dreifðari hrygning allt frá Biscayaflóa og norður fyrir Færeyjar. Á nyrstu svæðunum hefst hrygningin seinna og stendur fram í júlí. Frá árinu 2004 hefur orðið vart við makrílungviði við Suður- og Vesturströnd Íslands.

Skýrsluna má sjá hér: Recent occurrence and origin of juvenile Atlantic mackerel (Scomber scombrus L.) in Icelandic waters.

 

 

Deila: