Reynir nýr framkvæmdastjóri Vélfags

Deila:

Reynir B. Eiríksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Vélfags ehf. og tekur við starfinu af þeim Bjarma Sigurgarðarssyni og Ólöfu Ýr Lárusdóttur sem stýrt hafa fyrirtækinu frá stofnun árið 1995. Reynir hefur verið framleiðslustjóri fyrirtækisins en var áður framkvæmdastjóri Ferrozink og þar áður framleiðslustjóri Norðlenska og Skinnaðinaðar. Bjarmi og Ólöf Ýr munu áfram starfa við vöruþróun en þau eiga 45% félaginu eftir sölu meirihluta til rússneska sjávarútvegsfyrirtækisins Norebo í upphafi síðasta árs.

Fiskvinnsluvélar á sjó og landi
Vélfag hefur frá upphafi þjónustað fyrirtæki í sjávarútvegi og hóf fljótt eftir stofnun að þróa og framleiða eigin fiskvinnsluvélar. Vélbúnað Vélfags er að finna í bæði landvinnslum og vinnsluskipum hér á landi og erlendis.
Í framkæmdastjórn Vélfags verða verða eftir þessar breytingar Reynir B. Eiríksson, framkvæmdastjóri, Bjarmi Sigurgarðarsson þróunarstjóri, Sigrún Á. Sigmundsdóttir fjármálastjóri, Reimar Viðarsson þjónustustjóri og Ragnar Guðmundsson sölustjóri.

Stofnendurnir snúa sér að vöruþróuninni
„Við höfum rekið fyrirtækið frá stofnun og erum mjög sátt,“ segja þau Ólöf Ýr og Bjarmi í tilkynningu vegna þessara stjórendabreytinga. „Það er mjög ánægjulegt að sjá á hvaða vegferð fyrirtækið er og að fá jafn öflugt fólk í framkvæmdastjórn þess og raun ber vitni. Segja má að við höfum verið vakin og sofin yfir félaginu frá fyrsta degi en nú getum við sleppt hendinni af daglegum rekstri og snúið okkur alfarið að frekari vöruþróun.“

Miklir möguleikar til vaxtar
„Vélfag er mjög áhugavert fyrirtæki og mér þykir ánægjulegt að fá að taka þátt í frekari uppbyggingu þess. Ég hef mikla trú á félaginu, afar spennandi tímar eru framundan og ég er sannfærður um að Vélfag getur orðið gríðarlega öflugt,“ segir Reynir í tilkynningunni. Þar er einnig haft eftir Finnboga Baldvinssyni, stjórnarformanni Vélfags, að fyrirtækið hafi mikla möguleika til vaxtar.
„Að mínu viti er Vélfag vel geymt leyndarmál á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar hefur verið unnin mjög mikil þróunarvinna sem ekki hefur farið hátt. Stoðir fyrirtækisins eru orðnar mjög sterkar sem er nauðsynlegt á þeim spennandi tímum sem framundan eru.“

Deila: