Hálfnaðir með ýsuna

Deila:

„Samantektir á aflatölum frá Fiskistofu bera þess glögg merki að krókaaflamarksbátar munu lenda í vandræðum á þessu fiskveiðiári við að fullnýta veiðiheimildir sínar í þorski.  Þegar nokkrir dagar eru í að fjórðungur sé liðinn af fiskveiðiárinu hefur útgerðarflokkurinn veitt helming allra sinna heimilda (samanlögð úthlutun og færsla milli ára) í ýsu.  Á sama tíma í fyrra var hlutfallið 42%, en þess ber að geta að þá var hægt að fá leigðan ýsukvóta úr aflamarkskerfinu á viðráðanlegu verði.  Sú staða er ekki fyrir hendi í dag, nánast engar heimildir til leigu og það litla sem fellur til er boðið í jöfnum skiptum fyrir þorsk,“ svo segir í pistli á heimasíðu Landssambands smábáta. Þar segir ennfremur.

Meira af ýsu nú en í fyrra

„Ýsa virðist víða og þar með talið á blettum sem hún hefur vart sést áður.  Að sögn Halldórs Ármannssonar á Guðrúnu Petrínu og fyrrverandi formanns LS lagði hann línuna á slíkum svæðum í síðasta róðri.  Það dugði ekki til því helmingur aflans var ýsa.  Hann velti fyrir sér hvílíkt mok það gæti orðið ef hann legði á dæmigerða ýsuslóð.  Ýsan sem hann fékk var af öllum stærðum og vel haldin.  Eins og aðrir bindur Halldór vonir um að haustrallið sýni að stærð ýsustofnsins sé vanmetin og í kjölfarið muni ráðherra bæta við ýsukvótann.

Það að þurfa sífellt að reyna að forða sér frá ýsunni við þorskveiðar hefur oftsinnis þau áhrif að þorskurinn sem fæst er minni og lakari í verðum og veldur því slakri nýtingu á kvótanum. Það kemur fyrir að menn eru svo óheppnir að lenda í eintómu rusli og þurfa því að borga með sér að loknum róðri.

Þriðjungi minna í netin

Þegar rýnt er í aflatölur kemur í ljós mikill samdráttur í þorski.  Heimildir jukust um 5% milli ára, en afli hefur dregist saman um 5,2%.  Farið úr 69.825 tonnum í 66.226 tonn, 3.600 tonnum.

Í einstök veiðarfæri er lakasta útkoman í net.  Aðeins 672 tonn hafa veiðst á móti 1.019 tonnum á sama tíma í fyrra.  Þá hafa þorskveiðar í dragnót einnig minnkað verulega milli ára.  Farið úr 3.875 tonnum í 2.950 tonn, sem er nálægt fjórðungi minni afla.

Hjá togurum er sömu sögu að segja þorskafli nú rúmum 5% minni en í fyrra. Krókaaflamarksbátar hafa hins vegar bætt við sig í þorskinum.  Afli þeirra á fiskveiðiárinu var kominn yfir 11 þúsund tonn þann 26. nóvember sl. sem er rúmum 4% meira en á sama tíma í fyrra.“

 

Deila: