Ekki léleg þátttaka

Deila:

„Eftir atkvæðagreiðsluna um kjarasamninginn sem undirritaður var milli samtaka sjómanna og SFS þann 18. febrúar síðastliðinn hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Sumir halda því fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leyst með stuttum fyrirvara. Eins og menn vita voru kjarasamningar felldir í tvígang í þessari deilu og því fróðlegt að skoða hvernig þátttakan var allt þetta ferli.“

Svo segir í grein á heimasíðu Sjómannasambands Íslands um atkvæðagreiðslu og segir þar ennfremur:

„Kjarasamningur var undirritaður milli Sjómannasambands Íslands og SFS þann 24. júní 2016. Aðilar að þeim samningi voru öll aðildarfélög Sjómannasambandsins að VerkVest undanskildu. Sjómannafélag Íslands var ekki aðili að þeim kjarasamningi. Atkvæðagreiðslan um þennan samning fór fram ýmist með póstatkvæðagreiðslu eða á opnum kjörfundi. Atkvæðagreiðslan stóð yfir til 8. ágúst 2016 og voru atkvæði talin þann 10. ágúst 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 38,5%. Samningurinn var felldur með 66% atkvæða eins og menn vita.

Í kjölfar þess að kjarasamningurinn frá 24. júní 2016 var felldur var farið í atkvæðagreiðslu um allsherjarverfall á fiskiskipaflotanum. Atkvæðagreiðsla um verkfallið stóð í um mánuð og lauk henni þann 17. október 2016. Öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu, en þetta eru sömu félögin og töldu sameiginlega um samninginn sem undirritaður var 18. febrúar 2017. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um verkfallið hjá aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélagi Íslands var samanlagt 54,2%. Verkfall var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða.

Kjarasamningur var undirritaður þann 14. nóvember 2016. Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Íslands voru ekki aðilar að þeim samningi, en þeir undirrituðu samning daginn eftir. Þessir samningar fóru í atkvæðagreiðslu og var verkfalli frestað. Atkvæðagreiðslunni um þessa samninga lauk 14. desember 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samningana var óvenju mikil eða 60,4% þegar félög innan Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélag Íslands eru talin saman.

Kjarasamningur var undirritaður 18. febrúar 2017 og voru aðilar að samningunum öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands. Atkvæðagreiðslunni lauk að kvöldi 19. febrúar 2017 og stóð því yfir í stuttan tíma. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 53,4% eða sambærileg og um verkfallið og mun betri en um kjarasamninginn frá 24. júní 2016.

Samkvæmt framansögðu er hæpið að halda því fram að þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samninginn frá 18. febrúar 2017 hafi verið léleg. Þvert á móti er hún sambærileg og alla jafna um kjarasamninga hjá sjómönnum þrátt fyrir stuttan afgreiðslutíma á samningnum.“

 

 

Deila: