Hart deilt um frumvarp um sjókvíaeldi

Deila:

Nýtt frumvarp Bjarkeyjar Olsen matvælaráðherra um sjókvíaeldi hefur fengið hörð viðbrögð á Alþingi. Í frumvarpinu felst meðal annars að leyfi til sjókvíaeldis í fjörðum landsins eru ótímabundin. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðustóli á Alþingi í gær að væri verið að gefa fiskeldisfyrirtækjum íslenska firði um aldur og ævi. Hingað til hafa leyfin verið takmörkuð við 16 ár.

„Nú ætlar þessi ríkisstjórn að gefa auðlindir þjóðarinnar eða nánar tiltekið ríkisstjórnin ætlar að afhenda fiskeldisfyrirtækjum firðina okkar varanlega. Með ótímabundnum rekstrarleyfum sem hafa hingað til verið tímabundin til 16 ára í senn með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum,“ sagði Kristrún orðrétt. Í máli hennar kom fram að flest leyfin væru veitt án endurgjalds. Hún benti á að í orkuiðnaði væru rekstrarleyfin tímabundin, þrátt fyrir að fjárfestingar væru þar miklar. Hún spurði hvort matvælaráðherra þætti líklegt að samþykkt yrði í samfélaginu að laxeldisfyrirtækin notuðu íslenska firði um aldur og ævi.

Bjarkey svaraði því til að hún teldi ekki að verið væri að gefa heimildir til frambúðar. Hún benti á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafi komið fram að löggjöfin væri óljós. Í skýrslunni hafi komið fram að Matvælaráðuneytið yrði að taka af allan vafa hvort rekstrarleyfi væru tímabundin eða ótímabundin. Í dag væru þau í raun ótímabundin. Litlar heimildir séu til afturköllunar í íslenskum lögum. „Frumvarpið sem ég hyggst mæla fyrir er tilraun til að ná betur utan um það en núverandi löggjöf gerir,“ sagði ráðherrann.

Deila: