„Hrognin eru að koma, gerið kerin klár“
Bubbi söng um loðnuvertíðarstemninguna á Eskifirði á Ísbjarnarblúsplötunni 1980. Nákvæmlega þetta og miklu meira til fæst áhöfnin á Kap VE við þessa dagana. Hún er að gera klárt fyrir hrognin.
„Vertíðin gengur ljómandi vel það sem af er, við höfum farið í fjóra túra og komið með 700-800 tonn að landi í hvert sinn. Stoppað stutt við á miðunum. Nú eru hrognin næst á dagskrá. Verið er að þrífa lestarnar og við leggjum úr höfn í kvöld eða á morgun,“ segir Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap, staddur í Vestmannaeyjahöfn á föstudaginn var.
„Skipin náðu afla strax eftir að brælu linnti og eru flest á útleið aftur. Veðurspáin er góð svo langt sem séð verður, sem er mjög mikilvægt.
Nú þarf að finna loðnu með nægjanlegum hrognaþroska sem jafnan er mestur í torfum fremst í göngunni. Það er samt ekki algilt.
Eitt er víst að loðnuveiðar eru aldrei eins frá ári til árs og spennan hjá fólkinu við veiðar og vinnslu í landi gerir þennan tíma svo skemmtilegan.
Loðnan er mjög góð og hátt hlutfall hrygnu í aflanum. Vel gengur að heilfrysta fyrir Japansmarkað en nú er komið að hrognatökunni, verðmætasta hluta veiðanna.
Mér finnst loðnan veiðast heldur dýpra fyrir landi nú en til dæmis í fyrra og hún er mjög víða. Það er enn loðna í Meðallandsbugtinni, hún er úti fyrir Reykjanesi og fyrir norðan land líka.
Mun meiri rannsóknir skortir til að átta sig á hegðun loðnunnar. Svo þarf þorskurinn sitt og hvalirnir éta óhemju líka. Við erum í samkeppni við hvalina!
Ekki ætla ég að dæma um hvort loðnukvótinn er við hæfi núna eða óþarflega varlega metinn. En ef miklu meira er af loðnu í kringum okkur en mælingar gefa til kynna er dýrkeypt fyrir þjóðina og þjóðarbúið að auka ekki við kvótann. Þá fara mikil verðmæti í súginn fyrir lítið,“ sagði Jón Atli í spjalli á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.