Svo aðrir geti skarað eld að sinni köku!
Háafell, fiskeldisfyrirtæki í eigu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. í Hnífsdal (HG) hefur sagt sig úr Landssambandi Fiskeldisstöðva (LF) en fyrirtækið hefur verið félagi í samtökunum í rúm 15 ár og fulltrúi þess átt sæti í stjórn samtakanna undanfarin ár. „Það er augljóst að með þessu er ekkert tillit tekið til þeirrar vönduðu og miklu vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum. Því síður eru hagsmunir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum nokkurs metnir. Og það er í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svipt þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku,“ segir Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells.
Frá þessu er greint á heimasíðu HG en ástæðan er nýbirt stefnumótunarskýrsla samráðshóps um fiskeldi. Þar segir ennfremur:
„Um nokkurt skeið hefur framganga LF fjarlægst þá stefnu og sýn sem Háafell vill byggja á í uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Í síðustu viku skrifuðu fulltrúar LF athugasemdalaust undir stefnumótunarskýrslu í fiskeldi þar sem m.a. er lagt til að áform um uppbyggingu laxeldis í Ísafjarðardjúpi verði slegin út af borðinu og þar með 6 ára réttmætar væntingar Háafells, samfélagsins við Djúp og íbúanna að engu hafðar. Háafell hefur lagt sig sérstaklega fram um að vanda til verka í umsóknarferlinu, uppbyggingaráformin eru varfærin og hugsuð yfir lengri tíma, búið er að fara í gegnum ítarlegt samráðsferli með hagsmunaaðilum og íbúum og leggja til og útfæra mótvægisaðgerðir til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Ekki er tekið tillit til ofantalinna þátta í skýrslunni heldur virðist skýrslan fremur vera einhverskonar samkomulag milli stærstu eldisfyrirtækjanna og veiðiréttarhafa. Háafell mun áfram beita sér fyrir því að byggja varsamlega upp laxeldi í Ísafjarðardjúpi samkvæmt ströngum kröfum, í sátt við umhverfið og til hagsbóta fyrir samfélagið.
HG og síðar Háafell hafa stundað farsælt eldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2002 og verið með umsókn um 7000 tonna laxeldisleyfi í stjórnkerfinu síðan 2011. Háafell er eina eldisfyrirtækið sem er alíslenskt og í eigu heimamanna sem vinnur að uppbyggingu laxeldis í sjókvíum við Ísland.“
Greinargerð með úrsögninni má sjá á heimasíðu HG á slóðinni http://frosti.is/