Sátt um ábyrgt fiskeldi

Deila:

Forsenda fyrir því að sátt náist um framtíðaruppbyggingu öflugs og ábyrgs fiskeldis á Íslandi er að sjálfbær þróun og vernd lífríkis séu höfð að leiðarljósi. Þetta er kjarninn í samkomulagi Landssambands fiskeldisstöðva, Landssambands veiðifélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem fram kemur í skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi.

Starfshópurinn telur mikilvægt að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og verði þannig sterk og öflug atvinnugrein. Með hagfelldum rekstrarskilyrðum megi byggja upp fiskeldi á svæðum sem henta til slíks rekstrar og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Að sama skapi telur starfshópurinn mikilvægt að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis séu höfð að leiðarljósi. Einungis þannig muni nást sátt um framtíðaruppbyggingu fiskeldis. Starfshópurinn bendir á að slík sátt helstu hagsmunaaðila sé ekki einungis nauðsynleg fyrir uppbyggingu fiskeldis heldur skapi slík sátt markaðsleg sóknarfæri fyrir íslenskt fiskeldi til framtíðar, þar sem byggt er á umhverfisvænni ímynd. Því skuli rannsóknir ráða för við uppbyggingu fiskeldis – og í þeim tilfellum þar sem óvissa ríki um áhrif fiskeldis á vistkerfi eða umhverfi verði niðurstöður rannsókna lagðar til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda.

Í skýrslunni eru settar fram tillögur sem starfshópurinn telur rétt að komi til framkvæmda og lúta þær að flestum þeim þáttum sem varða uppbyggingu fiskeldis, s.s. auðlindagjaldi, áhættumati, erfðablöndun, leyfisveitingum, eftirliti og opinberri birtingu gagna.

Það er ljóst að fiskeldið hefur alla burði til að verða öflug og mikilvæg atvinnugrein. Við skulum hins vegar vanda til verka og tryggja að uppbyggingin verði á grunni vísindlegrar þekkingar með sjálfbærni og verndun lífríkis að leiðarljósi. Nú verða þessi mál rædd á komandi þingi og ég bind miklar vonir við að þverpólitísk sátt myndist um uppbyggingu fiskeldisins líkt og nú hefur náðst á milli hagsmunaaðila í störfum nefndarinnar,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

 

Deila: