Gríðarlega mikilvægt að efla nám í netagerð

Deila:

„Íslendingar eru fiskveiðiþjóð og í reyndinni hafa auðlindir hafsins lagt grunn að velferð þjóðarinnar. Enginn afli úr sjó næst án veiðarfæra og því skyldi ætla að veiðarfæragerð eða netagerð væri vinsæl iðngrein á meðal landsmanna og þeir sem sinntu henni mikils metnir. En hverjar eru staðreyndirnar? Það er ótrúlegt en satt að frá árinu 2005 hafa yfirleitt einungis 2-3 nemendur verið skráðir í netagerðarnám á öllu landinu og margir þeir sem hafa aflað sér menntunar í greininni hafa verið að láta af störfum vegna aldurs. Það er því óhætt að segja að staða veiðarfæragerðar í landinu er grafalvarleg þegar litið er til þróunar síðari ára og mikil þörf á aðgerðum til að efla iðngreinina og vekja áhuga á henni.“

Svo segir í færslu á heimasíðu síldarvinnslunnar, en þar er farið yfir stöðina í þessum málum:

Um síðustu áramót tók Fisktækniskóli Íslands í Grindavík við netagerðarnáminu og mun skólinn annast það í framtíðinni. Námskrá var endurskoðuð árið 2016 og er boðið upp á námið í samstarfi við fagnefnd netagerðar, sjávarútvegsfyrirtæki, öll helstu fyrirtæki í veiðarfæragerð og þau fyrirtæki sem þjónusta netagerðirnar. Lögð er áhersla á að nemendur þurfi ekki að flytjast búferlum til að geta lagt stund á námið. Faglegu greinarnar eru kenndar í staðar- og fjarnámi en hinar almennu greinar er unnt að taka við hvaða framhaldsskóla sem er t.d. í fjarnámi. Þá er lögð áhersla á svonefnt raunfærnimat, en í raunfærnimati er starfsreynsla metin inn í námið og þannig getur námstími styst til mikilla muna.

Ásdís V. Pálsdóttir verkefnastjóri í Fisktækniskólanum segir að nú sé lögð áhersla á að endurvekja áhuga á námi í netagerð og þá skipti miklu að námið sé aðgengilegt öllum án tillits til búsetu. Þá sé afar brýnt að þeir sem starfað hafi við veiðarfæragerð og viðhald veiðarfæra  fái að njóta þekkingar sinnar og reynslu í náminu en margir sjómenn hafi haldgóða reynslu á þessu sviði. Ásdís bendir á að í reynd sé það grundvallaratriði fyrir íslenskan sjávarútveg að veiðarfæragerð í landinu sé á háu stigi því þó svo að stærri fiskiskipum hafi fækkað þá hafi veiðarfærin stækkað og gerð þeirra krafist síaukinnar kunnáttu og þekkingar. Til viðbótar hafi bæst við verkefni vegna sífellt umfangsmeira laxeldis. Ef allt væri eðlilegt ætti netagerð að vera á meðal virtustu iðngreina á Íslandi.

Stefán B. Ingvarsson, framkvæmdastjóri Egersund á Eskifirði, tekur undir að afar brýnt sé að efla nám í netagerð. Nú er Stefán eini starfsmaður Egersund með iðnréttindi en hjá fyrirtækinu eru hins vegar þrír nemar sem munu væntanlega ljúka námi í haust og vetur. „Það er mikilvægt að Fisktækniskólinn og netagerðir á landinu taki höndum saman og vinni að eflingu náms í greininni. Allar vinnuaðstæður hafa gjörbreyst. Netagerðarmenn standa ekki lengur á bryggjum í öllum veðrum við vinnu sína heldur er verið að skapa gott vinnuumhverfi. Við hjá Egersund bjóðum upp á góðar vinnuaðstæður og nú eru að hefjast framkvæmdir við byggingu þvottastöðvar fyrir laxeldispoka. Starfsemin er vaxandi og eru verkefnin fjölbreytt. Starfsmenn eru 16 talsins og starfsmannaveltan er afar lítil. Við höfum lagt áherslu á að greiða starfsfólki eftir iðnaðarmannasamningum en hér áður voru launin of lág og hvöttu ekki til þess að menn hæfu nám í netagerð. Það ætti að vera spennandi fyrir ungt fólk að hefja nám í netagerð í dag því á sviði veiðarfæragerðar er hröð þróun og sífellt verið að sinna nýjum og spennandi verkefnum,“ segir Stefán.

Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri Fjarðanets leggur áherslu á að netagerð sé spennandi námsgrein og framþróunin á sviði veiðarfæragerðar hafi verið ör síðustu áratugi. „Síðustu áratugi hafa sífellt verið að koma fram ný efni til veiðarfæragerðar, sem við höfum nýtt okkur til að þróa ný og betri veiðarfæri. Mikilvægt er að sú þróun haldi áfram og til þess að svo verði þarf að vera til staðar vel menntað og reynslumikið starfsfólk í iðngreininni.  Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir efnahagslífið og sjávarútveginn að nám í netagerð sé eflt og þekking á því sviði sé metin að verðleikum.

Fjarðanet hefur starfsstöðvar í Neskaupstað, á Akureyri og á Ísafirði. Hjá fyrirtækinu eru 24 starfsmenn, þar af eru 7 með iðnréttindi og 3 nemar. Í Neskaupstað eru 10 starfsmenn, 3 með iðnréttindi og einn nemi. Endurnýjun hefur verið of lítil síðustu árin hjá fyrirtækinu. Framkvæmdir eru hafnar við nýtt glæsilegt 2.200 fermetra netaverkstæði Fjarðanets í Neskaupstað og er áformað að starfsemi hefjist í því í mars á næsta ári. Er það von okkar að ný og bætt vinnuaðstaða hafi hér áhrif og stuðli að breyttum viðhorfum til iðngreinarinnar. Það hefur verið reynsla annarra, m.a. í nágrannalöndunum. Það þarf að beita öllum ráðum til að laða fólk til starfa við veiðarfæragerð og hvetja fólk til náms í iðngreininni.  Í því sambandi er mikilvægt að bjóða upp á nám sem krefst ekki búferlaflutninga og eins skiptir raunfærnimatið miklu máli. Skipulag námsins er grundvallarþáttur í þessu sambandi,“ segir Jón Einar Marteinsson.

 

 

Deila: