Vilja 10 sóknardaga á mánuði

Deila:

Fontur, félag smábátaeigenda á NA-landi hefur sent frá sér ályktun um strandveiðar og byggðakvóta. Landssamband smábátaeigenda vekur athygli á þessu. Fontur leggur til að sóknardögum á Strandveiðum verði fækkað úr 12 í 10, úr því ekki sé unnt að tryggja veiðunum 48 daga. Þannig mætti tryggja jafnræði á milli landshluta.

Ályktanir Fonts:

Strandveiðar.

Stjórn smábátafélagsins Fonts skorar á matvælaráðherra og Alþingi að tryggja strandveiðar í 48 daga á tímabilinu maí til ágúst komandi sumar. Síðustu ár hafa strandveiðar verið stöðvaðar æ fyrr með hverju árinu, síðast í byrjun júlí með tilheyrandi tjóni fyrir okkar félagsmenn sem hafa jafnan ekki ásættanlega afkomu af strandveiðum fyrr en í júlí og ágúst þegar stærri og verðmætari fiskur gengur á okkar veiðislóðir. Standi vilji stjórnvalda ekki til þess að tryggja nægar veiðiheimildir sem duga fyrir 48 daga verði dögum fækkað. Í stað tólf daga í hverjum mánuði verði fjöldi veiðidaga tíu. Samhliða breytingunni verði tryggt að ákvæðið um að Fiskistofa skuli stöðva veiðar þegar sýnt þykir að leyfilegum heildarafla verði náð, komi ekki til framkvæmda. Breytingin mun tryggja fullt jafnræði strandveiða milli allra landshluta.

Almennur og sértækur byggðakvóti.

Í ljósi þess að nú stendur yfir úttekt Ríkisendurskoðunar á ráðstöfun byggðakvóta (almennum og sértækum) og einnig að samningar Byggðastofnunar um sértækan byggðakvóta renna út um næstu fiskveiðiáramót viljum við koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við matvælaráðherra og Alþingi. Samningar Byggðastofnunar um sértækan byggðakvóta til 6 ára hafa víðast hvar ekki náð þeim markmiðum um „byggðafestu” sem stefnt var að (Grímsey er nærtækt dæmi með fullri virðingu fyrir félögum okkar þar) og mun úttekt Ríkisendurskoðunar væntanlega leiða í ljós það mikla hnökra á því kerfi að það verði aflagt. Almennur byggðakvóti hefur það fram yfir sértækan að skilyrði um að fiskiskip landi tvöföldu því magni sem þau fá úthlutað til vinnslu innan viðkomandi byggðarlags eru einföld, skýr og hafa reynst vel í framkvæmd. Fiskistofa hefur eftirlit með að þau séu uppfyllt og nákvæmt yfirlit yfir stöðu almenns byggðakvóta er alltaf aðgengilegt á vef Fiskistofu. Almennur byggðakvóti er háður lágmarksverði til sjómanna og skilar viðkomandi hafnarsjóðum því eðlilegum tekjum. Byggðastofnun hefur lögum samkvæmt eftirlit með nýtingu á sértækum byggðakvóta en þar liggja ekki fyrir neinar opinberar upplýsingar um raunverulega framkvæmd samninga um þann kvóta, sem verður að teljast undarlegt í ljósi þeirra miklu verðmæta sem felast í þeim samningum.

Deila: