Vélin klæðir hrognin úr buxunum!

Deila:

Vel gengur hjá fjölskyldufyrirtækinu Beiti í Vogunum. Búnaður til línuveiða hefur verið uppistaðan í framleiðslu þess, fyrst hér innanlands, en síðan hefur útflutningur tekið við. Nú selur fyrirtækið slíkan búnað til Noregs, Danmerkur og Kanada. Þá er hafin smíði og útflutningur á hrognaskiljum, en þær klæða hrognin úr buxunum, hvort sem þau eru fersk eða söltuð. Grískt fyrirtæki er til dæmis að kaupa slíka vél fyrir söltuð þorskhrogn. Eigendur Beitis eru Hafsteinn Ólafsson og Þóra Bragadóttir.  Fyrirtækið kynnir framleiðslu sína á Sjávarútvegssýningunni 2019 í Laugardalshöll. Sýningin hefst á morgun og stendur til föstudags.

„Það er nú ýmislegt fleira í gangi en það sem við höfum verið að fást við hér heima og í Noregi. Okkur gengur mjög vel að selja línukerfin okkar á Nýfundnalandi og víðar í Kanada. Við erum þar alveg á fullu því stjórnvöld eru að beina mönnum úr netaveiðum yfir í línuna. Þau veita háa styrki til kaupa á línubúnaði og útfærslan okkar hefur hitt mjög vel í mark, því þeir eru með mjög mikið af smábátum. Þeir hafa þá verið á gildruveiðum áður og vilja nú bæta línunni við sig. Svo eru Danirnir að kaupa meira af kerfunum, það gerist hægt að sígandi en það eru alltaf tveir til þrír á ári sem bætast við. Þar var verið að setja á svipaðan pott og strandveiðina hér fyrir smærri báta. Þeir mega þó veiða í net þar, en verða að taka þau upp í hverri veiðiferð. En svo geta þeir sótt um 45% styrk, ef þeir kaupa línubúnað og afleggja netin. Það er verið að beina mönnum hægt og hljótt yfir í línuna víðast hvar,“ segir Hafsteinn Ólafsson.

Hafsteinn Ólafsson og hans fólk smíðar og flytur utan línkerfi fyrir smábáta. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Meiri séns að finna þá í kirkjugarðinum

„Það var svolítið skondið, þegar við vorum þarna á Nýfundnalandi í fyrra, vorum við bara með mannskap héðan af verkstæðinu til að setja línukerfin niður í bátana. Þá vildu þeir fá einhvern sem gæti kennt þeim á þetta. Við spurðum þá hvort þar væru ekki einhverjir af þeim sem hefði verið á línu. Þá urðu þeir svolítið hugsi og sögðu að það gæti verið erfitt að finna þá. Það væri kannski möguleiki að fara á elliheimilin, en miklu meiri séns að finna þá í kirkjugarðinum. Það er heil kynslóð dottin út í línuveiðunum, því grunnslóðin hjá þeim hefur verið lokuð í 25 ár út að 60 mílum og hinir hafa bara verið á netum. Við þurftum því að ná í skipstjóra og fengum því Arnar á Særifinu til að koma með okkur til að kenna þeim. Það gekk mjög vel og þeir voru fljótir að læra enda góðir sjómenn. Það verður þó eitthvað meira af því að við verðum að hafa skipstjóra með okkur.“

Smíða vél til að hreinsa söltuð hrogn

Svo er Beitir kominn svolítið í hrognabransann. Nú er verið að senda vél til Grikklands sem á að hreinsa söltuð þorskhrogn, sem Grikkir hafa meðal annars keypt héðan frá Íslandi. Vélin „klæðir hrognin úr buxunum“ eða þannig, hún aðskilur þau frá himnunni, sem heldur hrognunum saman. Einnig hafa hrognavélar verið seldar til Noregs, en þar eru Norðmenn að vakna til lífsins í betri nýtingu og verðmeiri afurðum en áður. Norðmenn hafa ýmist verið að selja hrognin fersk eða fryst og eru að huga að því að fara að salta þau eins og við.

Þessi vél klæðir hrognin úr buxunum, hvort sem þau eru fersk eð söltuð. Grikkir eru að kaupa svona vél af Beiti.

„Það er svolítið gaman af þessu Grikkjaævintýri. Við erum búin að vera með heilmikla tilraunastarfsemi hérna heima vegna þess. Það hefur ekki verið gert áður að koma hrognum í gegnum skiljuna og ná buxunum af eftir að þau hafa verið söltuð, nema bara handvirkt. Þeir eru að kaupa óhemju magn af hrognum bæði héðan og annars staðar, þannig að það er mikil vinna í að hreinsa þau. Hann hefur verið með okkur í þessu hann Einar Lárusson, matvælafræðingur sem er núna hjá Ora. Við fengum 50 kíló af hrognum hjá honum með því skilyrði að hann fengi að fylgjast með framvindunni. Það var mikill styrkur að hafa hann með í þessu, en hann er búinn að veltast um í þessu dóti í mörg, mörg ár. Það eru sjálfsagt ekki margir hér heima sem hafa jafn yfirgripsmikla þekkingu í þessu eins og hann.

Þetta gekk mjög vel og við enduðum á því að finna aðferð sem gekk upp. Grikkjunum leist ágætlega á niðurstöðurnar hjá okkur, en þeir vildu senda okkur 50 kíló af söltuðum hrognum frá sér og sjá hvernig þau færu í gegn hjá okkur. Við erum að bíða eftir þeirri sendingu og við eigum svo að taka upp myndbönd með tveimur vélum frá a til ö. Þeir vilja að þetta sé pottþétt og sjá hver nýtingin er. Það er reyndar svolítið erfitt að meta nýtingu úr svona litlu magni.

Smíða fyrir Stofnfisk

Við tengjumst hrognabransanum hérna heima líka á óbeinan hátt, það er að segja í laxeldinu. Stofnfiskur er með eldisstöðvar á tveimur stöðum, á Kalmannstjörn og svo hérna í Vogunum undir Stapanum. Þeir eru bara í því að selja lifandi hrogn, en það fellur óhemja af fiski til við hrognaframleiðslu og honum þarf að slátra. Þeir eru að ljúka við byggingu annars sláturhúss af tveimur og við erum að smíða aðgerðarlínurnar í þau,“ segir Hafsteinn.

Hafsteinn segir að markaðurinn hér heima fyrir í línukerfum og öðrum búnaði fyrir smærri báta hafi dregist mikið saman. Samþjöppunin sé mikil í sjávarútveginum og allt fari á hendurnar á þessum stóru. Mjög margir af þessum minni bátum, sem voru bestu viðskiptavinirnir hafi dottið út og því verði að leita annarra leiða, bæði innan lands og utan. Það þurfi að finna einhver önnur egg til að bæta í körfuna.

Stækka húsið um helming

„Við erum afar glöð með allt sem er að gerast hjá okkur. Við vorum sex að vinna við framleiðsluna í sumar og mikið að gera. Svo vantar okkur menn fyrir veturinn. Við vorum svo heppnir að fá mjög góða stráka út Vélskólanum í sumar, sem eru að fara aftur í skólann í haust. Við erum svo að fara að stækka við okkur, stækka húsið um helming. Það er enginn barlómur hér og við höldum ótrauð áfram þó maður sé farinn að eldast. Við erum svo heppin að sonur okkar, sem útskrifaðist úr Vélskólanum í vor er að stíga meira og meira inn í fyrirtækið og það gefur okkur tækifæri til draga okkur smám saman í hlé. Við verðum því kannski meira á hliðarlínunni eftir tvö ár eða svo. En meðan maður hefur gaman af þessu og heilsan leyfir verður maður áfram við þetta. Ég held að það sé ekkert gaman að ráfa aðgerðarlaus um í einhverju stefnuleysi.“

Við fórum tvær ferðir í fyrra til Nýfundnalands og erum að fara þangað aftur núna til að setja niður búnað. Við erum búin að hóa nokkrum aðilum saman til að nýta ferðina. Erum með einhverja fimm aðila á könnunni, sem hafa fengið vilyrði fyrir styrk frá hinu opinbera. En það er svolítið merkilegt hve útgerðarmenn þessara litlu báta hafa af peningum til að spila úr. Þó þeir þurfi ekki að borga nema 10% til 15% af heildarkostnaði ráða þeir varla við það. Það stendur reyndar líka á því að þorskkvótinn er mjög lítill ennþá og hefur nánast verið sá sami í þrjú ár. En þeir segja að þetta sé ágætt með öðru. Þeir hafa góðar tekjur af humarveiði og eitthvað út út snjókrabbanum, en rækjan er algjörlega hrunin eins og gerðist hjá okkur þegar þorskstofninn fór að stækka og þorskurinn lagðist í rækjuát,“ segir Hafsteinn.

Allt smíðað á staðnum

Hjá Beiti er allt smíðað á staðnum og ekkert sent frá þeim nema fullgert. Þau hafa þó þurft að kaupa þjónustu við laserskurð hjá Geislatækni í Garðabæ. „Sonur okkar teiknar þá hluti sem við þurfum og þeir skera fyrir okkur. Við setjum svo allt saman hér og það er  afskaplega gaman að vinna úr efni, sem er skorið svona.“

Auk þess að smíða línukerfin er Beitir að framleiða vinnslubúnað af ýmsu tagi og fleira, spil fyrir netaveiðar og gildruveiðar og svokallaða kúlukarla sem draga af netaspilunum. Þegar margir af stóru línubátunum fóru á grálúðunet smíðaði Beitir þó nokkuð í þá, meðal annars í Önnu EA. Þangað fóru þrír kúlukarlar og mikið af varahlutum. „En það er þetta línukerfi okkar sem er undirstaðan. Það er einfalt og gott og er að virka. Bjarni Sigurðsson, Íslendingur búsettur í Noregi er að fá nýjan balabát frá Trefjum og við seljum búnað í hann. Hann er líka á grásleppu og hann og annar aðili í Noregi eru að kaupa af okkur tvær hrognaskiljur og annarri þurfum við að koma í bátinn áður en hann fer til Noregs, til að spara flutningskostnað,“ segir Hafsteinn Ólafsson.

 

Deila: