Mikill undirbúningur að skila sér í frábærri vöru

Deila:

IP Containers er stofnað af IP Inc, Kanadísku fyrirtæki sem hefur langa sögu á alþjóðlegum markaði.  IP Containers sérhæfir sig í framleiðslu á fiskikörum, sambærilegum þeim, sem Borgarplast og Sæplast eru að framleiða. Framleiðslan byggist upp á tveim vörulínum, körum sem eru hönnuð og sérhæfð fyrir Norður-Ameríku annars vegar og hins vegar körum, sem eru sömu gerðar og þau sem notuð eru á Íslandi og í Evrópu. Þau eru notuð á fiskmörkuðum, í ísfisktogurum fiskvinnslu og víðar. Fyrirtækið sýnir framleiðslu sína á sýningunni Sjávarútvegur 2019, sem hefst á miðvikudag og stendur fram á föstudag.

Unnið hefur verið af undirbúningi á framleiðslu IP Containers síðustu 2 árin.  Staðsetning framleiðslunnar var valin með tilliti til aðgangs að hráefni, framleiðslukostnaðar og síðast en ekki síst staðsetningu en framleiðsla er staðsett í Kína við Ningbo, einnar stærstu gámahafnar í heimi.  IP Continers hefur starfstöðvar í Kanada, Spáni og íslandi

Óli Björn Ólafsson er markaðsstjóri IP Containers fyrir Evrópu.

Óli Björn Ólafsson er markaðsstjóri fyrir Evrópu. „Við leggjum megináherslu á Austur-Evrópu og þá sérstaklega Rússland,“ segir Óli Björn, en hann talar reiprennandi rússnesku. Hann bendir á að gríðarlegur uppgangur sé í rússneskum sjávarútvegi þessa dagana.

Staflast með öðrum körum

„Við sáum möguleika á að koma þarna inn, enda erum við með sambærilega vöru, bæði hvað varðar gæði, útlit og stærð karanna. Þar af leiðandi er hægt að stafla körunum frá okkur með íslensku körunum, sem er mjög mikilvægt ef menn vilja kaupa ný kör frá okkur. Þá þurfa þeir ekki að skipta út þeim íslensku, sem þeir eiga fyrir. Við höfum farið með körin í styrkleikaprófun og  mat á einangrun, sem hvort tveggja kemur mjög vel út. Við höfum þegar selt nokkuð af körum til Rússlands og þar hafa þau verið notuð með góðum árangri. Sömu sögu er að segja af körum sem hafa farið til Norður-Ameríku.“

Óli Björn segir að þrátt fyrir þessa kosti sé það ekki stefnan að fara inn á íslenska markaðinn. Þátttakan í sjávarútvegssýningunni sé fyrst og fremst til að kynna fyrirtækið, enda sé sýningin alþjóðleg. Þeir muni líka nota tækifærið til að kynna kælibox sem fyrirtækið framleiði, en þau henti vel í útilegur til kælingar á drykkjum og matvælum. Gríðarlega mikill markaður sé fyrir kælibox um allan heim. Þá sé verið að bæta við plastpallettum, svokölluðum Euro-brettum eða iðnaðarbrettum við framleiðsluna og þar sjái fyrirtækið mikla möguleika líka.

„Við erum með samstarfsaðila okkar á sýningunni, sem er danskt fyrirtæki, Semistaal,  sem selur karaþvottavélar. Sérhannaðar vélar til að þvo körin eftir notkun. Þegar þeir selja sínar vélar og markaðssetja þær bæta þeir við að þeir geti útvegað fyrirtæki sem framleiðir kör og öfugt, þegar ég er að selja körin okkar, kynni ég vélarnar frá þeim. Við vinnum þetta svona saman og þeir verða á sýningarbásnum hjá okkur. Þetta er öflugt félag sem ég held að hafi meðal annars selt karaþvottavélar hér á landi,“ segir Óli Björn.

 Að besta gæði og lækka kostnað

Eigandi IP Containers er Jón Ósmann Arason og var staddur í Kína, þegar rætt var við hann. „Það hefur átt sér stað mikil undirbúningsvinna síðustu árin sem er að skila sér í frábæri vöru sem við teljum eiga fullt erindi á markaðinn.  Við undirbúning á stofnun fyrirtækisins tókum við alla grundvallarþætti inn í þá jöfnu til að besta gæði og lækka kostnað. Við höfum fjárfest í nýjustu framleiðslutækjum og notum alltaf bestu mögulegu hráefni.  Þetta hefur skilað okkur betri kerum bæði hvað varðar styrk og svo varmaheldni, en við höfum mælt 15-20% betri varmaheldni í okkar körum en samkeppnisaðila.  Við hlökkum mikið til að kynna þetta fyrir markaðinum sem og mjög samkeppnishæf verð.  Við hjá IP Containers hlökkum til að kynnast markaðinum betur og höfum þegar fengið frábærar mótökur í Boston, Brussel, Rússlandi og nú vonandi líka á sýningunni Sjávarútvegur 2019. Svo verður spennandi að fara til Dubai í október þar sem við munum taka þátt í sjávarútvegssýningu,“ segir Jón Ósmann.

 

Deila: