Fyrsti makríllinn til Síldarvinnslunnar

Deila:

Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í gær með fyrsta makrílinn sem þangað berst á vertíðinni. Afli skipsins var 700 tonn upp úr sjó og þar af 500 tonn af frystum makríl. Vilhelm Þorsteinsson kom einnig til Neskaupstaðar með fyrsta makrílfarminn á síðustu vertíð en það var 11. júlí eða átta dögum fyrr en í ár.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Guðmund Jónsson skipstjóra á Vilhelm og spurði hann hvernig honum litist á vertíðina. „Mér líst vel á vertíðina, ég trúi því að þetta verði fínasta vertíð. Annars er makríllinn heldur seinna á ferðinni en undanfarin ár enda er sjórinn við landið heldur kaldari en hann hefur verið um þetta leyti árs. Við byrjuðum túrinn á því að fara í Smuguna en þar var heldur lítið að hafa. Við fengum þar þrjú hundruð tonn. Síðan var farið á miðin austan við Vestmannaeyjar, í Háfadýpið, og þar fengum við meirihluta aflans. Veiðin var þar heldur róleg en hún glæddist, allavega hjá einhverjum skipum, eftir að við héldum í land. Makríllinn sem fæst þarna er stór og fallegur. Þetta er 430 gramma fiskur og 19-20% feitur. Það er svolítil áta í honum. Ég reikna með að þetta verði allt heldur seinna á ferðinni nú en síðustu ár en í fyrra var makrílvertíðinni lokið í lok september og þá vorum við búnir að vera í Smugunni um mánaðartíma. Við fórum í Smuguna 29. ágúst því þá var veiðin búin hér við landið,“ segir Guðmundur Jónsson.

Á myndinni er Guðmundur Jónsson skipstjóri. Á bak við hann sést Vilhelm Þorsteinsson EA. Ljósm. Smári Geirsson

Deila: