Eimskip og Norðurál semja

Deila:

Eimskip og Norðurál hafa skrifað undir samstarfssamning um flutning á afurðum Norðuráls til og frá verksmiðju þeirra á Grundartanga, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Eimskips.

Samningurinn tekur að sögn gildi um mitt ár 2023 og er til fimm ára. Í fréttinni segir að félögin hafi um árabil átt gott samstarf þar sem öll álframleiðsla Norðuráls hafi verið flutt í gámum með áætlunarskipum Eimskips. Bæði félögin séu með metnaðarfullar áætlanir í umhverfismálum og styðji samningurinn við þær. Miklu máli skipti að nýting flutningsgetu skipastólsins sé sem best, til að lágmarka kolefnisspor flutninga. Skipin sem flytja vörur Norðuráls og annan varning eins og sjávarafurðir á markaði erlendis snúa til baka með ýmsar vörur, t.d. ferskvöru, ávexti og grænmeti, en stór og öflug skip geta boðið upp á samkeppnishæfan flutningstíma við flug og minna kolefnisspor.

Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga: Við val á flutningafyrirtæki var meðal annars horft til framtíðarsýnar Eimskips í loftslagsmálum. Norðurál leggur mikla áherslu á að lágmarka kolefnisspor framleiðslu sinnar og er þá horft á alla virðis- og aðfangakeðjuna þar til varan er komin til viðskiptavinar. Til að ná því marki verður kolefnisspor á hverja flutta einingu að vera eins lágt og mögulegt er og ljóst að góð nýting skipa í áætlanaflutningum hefur jákvæð áhrif í þá veru. Við framleiðum nú þegar það ál sem hefur eitt minnsta kolefnisspor í heiminum og viljum minnka það enn frekar. Þessi samningur er skref í þá átt.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips: Ég er mjög ánægður að halda áfram okkar góða og árangursríka samstarfi við Norðurál. Í sameiningu hafa félögin byggt upp góða þekkingu á flutningum á álsívalningum sem er ný vara hjá Norðuráli og þar kemur öflugt siglingarkerfi Eimskips og sérfræðiþekking starfsfólks á flóknum flutningum að góðum notum. Samningurinn endurspeglar sterka stöðu Eimskips í millilandaflutningum og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Norðurál.

Á myndinni eru frá vinstri Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga, Björn  Einarsson, framkvæmdastjóri Sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskip og Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

Deila: