Full vinnsla í fiskiðjuverinu

Deila:

Vinnsla á makríl og síld gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Í gær var lokið við að vinna síld úr Beiti NK en þá hófst vinnsla á síld og makríl úr Berki NK. Börkur kom með um 350 tonn í gær og fékkst aflinn hér eystra. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að þeir hafi tekið tvö síldarhol yst í Reyðarfjarðardýpinu og síðan eitt makrílhol austur úr Hvalbak. Þá kom Bjarni Ólafsson AK í morgun með rúmlega 400 tonn af makríl sem fengust fyrir vestan land.

„Gert er ráð fyrir að lokið verði við að vinna þennan afla í fyrramálið. Síðan verður fiskiðjuverið þrifið og vöktum væntanlega slitið annað kvöld. Gefið verður gott helgarfrí þannig að starfsfólk geti notið Neistaflugshátíðarinnar og safnað kröftum fyrir framhald makríl- og síldarvertíðarinnar.

Rétt er að vekja athygli á því að Síldarvinnslan styrkir Neistaflugshátíðina og gefst starfsmönnum fyrirtækisins kostur á að kaupa Neistaflugsarmbönd á kr. 6.000. Armböndin veita aðgang að öllum þeim dagskrárliðum sem fram fara í Egilsbúð,“ segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ljósmynd Húnbogi Sólon

 

Deila: