Sóttu hluta af trolli í fjöruna

Deila:

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst fyrr í þessum mánuði ábendingum frá hafnarverðinum á Seyðisfirði um að göngumaður hefði fundið mikinn netabunka í fjörunni í Selstaðavík, sem er í norðanverðum firðinum. Var þessum upplýsingum komið til varðskipsins Týs, sem var á nálægum slóðum í hefðbundinni eftirlitsferð, og hélt það þegar á vettvang til að kanna málið.

Þegar komið var á staðinn fór hópur vaskra manna frá varðskipinu á léttbátum til að athuga aðstæður Í ljós kom að um var að ræða 30-40 metra langan belg, sennilega af kolmunnatrolli, sem lá samanbundinn í fjörunni. Líklegt er að trollhlutanum hafi skolað fyrir borð frá veiðiskipi úti fyrir Austfjörðum og virðist ekki hafa verið mjög lengi í sjó.

Hafist var handa við að fjarlægja trollhlutann úr fjörunni og var hann dreginn út að varðskipinu og hífður þar um borð. Trollhlutinn var síðan hífður í land á Seyðisfirði við komu varðskipsins þangað.

Nauðsynlegt er að fjarlægja netastykki úr fjörum eða sjó þegar vart verður við slíkt. Mikil hætta getur skapast ef skip fá þessi drauganet í skrúfuna, engin leið er að segja um afleiðingarnar af því.

 

Deila: