Óbreyttur fjöldi veiðidaga á grásleppu

Deila:

Í reglugerð um hrognkelsaveiðar 2017 er líkt og áður gefinn út fjöldi veiðidaga til bráðabirgða þar til lokaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar liggur fyrir um mánaðamótin mars/apríl. Upphafsfjöldi daga er sá sami og áður eða 20 veiðidagar.
Engar breytingar eru gerðar á reglugerðinni utan að ákvæði um upphafs- og lokatíma veiða er breytt í sama horf og var 2015. Í byrjun árs 2016 kom Hafrannsóknastofnun fram með ráðgjöf til ráðuneytisins um að svo virtist sem skipti máli til að draga úr meðafla að veiðin hæfist seinna. Brugðist var við þessum ábendingum.

Í bréfi Hafrannsóknastofnunar sem barst ráðuneytinu 24. mars kemur fram að reynslan af síðustu vertíð sýni ekki að þessi aðgerð hafi heppnast. Þvert á móti hefði skráður meðafli 2016 ekki verið meiri um árabil. Bréf Hafrannsóknastofnununar er í viðhengi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hvetur grásleppuveiðimenn til að skrá allan meðafla af ýtrustu nákvæmni á næstu vertíð. Góð umgengni er mikilvægast þátturinn í orðspori þessara veiða og það verða þeir sem þær stunda að hafa efst í huga.

 

Deila: