Einstakar myndir af klaki á steinbítslirfum í hafinu við Ísland

Deila:

Kafarar frá Sportkafarafélagi Íslands (SKFÍ) og Hafrannsóknastofnun náðu á dögunum einstökum myndum af fisklirfuklasa á 18 metra dýpi. Talið er að þarna hafi klak á steinbítslirfum verið myndað. Ekki er vitað til að áður hafi náðst myndir af því í hafinu hér við land.

Mennirnir voru við köfun við Óttarsstaði rétt við Straumsvík þegar þeir sáu fisklirfurnar streyma í þúsundatali út frá klettaholu þar sem fyrir var steinbítur. Svæðið er mjög vinsælt til köfunar og sjást steinbítar reglulega í holum þar. Kafarar hafa ekki áður séð steinbít gæta hrogna, hvað þá myndað klak á steinbítslirfum.

Hegðun steinbítsins í holunni vakti athygli kafaranna. Hann var hinn rólegasti þrátt fyrir að vera myndaður, en venjulega bregðast steinbítar við slíku áreiti með því að draga sig inn í holuna eða opna kjaftinn með ógnandi tilburðum.

Á þessum árstíma er ekki mikið um fiska á Óttarsstöðum og sáu kafararnir einungis þennan eina fullorðna steinbít, auk nokkurra eins til tveggja ára ókynþroska þyrsklinga, þrátt fyrir ítarlega leit.

Um hrygningu steinbíts

Hjá steinbít á sér stað innri frjóvgun. Fljótlega eftir hana hrygnir steinbítshrygnan og býr til hrognaklasa í holum eða gjótum sem hængurinn gætir á klaktímanum. Hængurinn ver hrognaklasann fyrir utanaðkomandi hættum; fyrir að vera étinn af öðrum lífverum og fyrir bakteríum og sveppasýkingum með því að þekja hrognaklasann sótthreinsandi slími sem hann býr til. Þá sér hann til þess að öll hrognin fái nóg súrefni með því að blaka stirtlunni þannig að sjór streymi í gegnum klasann.

Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa sýnt að hrygningartími steinbíts við Íslands er frá seinnihluta ágúst fram í október. Klaktíminn er langur, 4-6 mánuðir eftir hitastigi sjávar, og klekjast steinbítslirfur á tímabilinu febrúar til maí. Hitastig í sjónum við Óttarsstaði var um 6-7 gráður þegar myndirnar náðust, sem er hlýtt miðað við árstíma.

Steinbítur hrygnir víða umhverfis Ísland, mest á Látragrunn. Vegna rannsókna Hafrannsóknastofnunar hefur verið þar friðað svæði síðustu 15 ár til að vernda steinbít á hrygningar- og klaktíma. Árið 2010 var svæðið stækkað og er nú um 1000 km2 sem samsvarar um 12 Þingvallavötnum.

Kafararnir sem mynduðu voru Arnbjörn Eyþórsson og Þorvaldur Hafberg frá SKFÍ og Þór Ásgeirsson sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Þess má geta að Erlendur Bogason kafari og umsjónarmaður strýtanna í Eyjafirði hefur fylgst með hrygningu steinbíts og hefur náð einstökum myndum af hængum gæta hrognaklasa í holum þar.

Sjá má myndbandið á YouTube-síðu Hafrannsóknastofnunar.

Deila: