T90 pokinn eykur aflaverðmætið umtalsvert
,,Við vorum líklega þeir fyrstu sem reyndu þennan nýja trollpoka fyrir Hampiðjuna og reynslan var það góð að við höfum notað T90 pokann á makríl- og síldveiðum alfarið í nokkur undanfarin ár,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á uppsjávarveiðiskipinu Víkingi AK sem HB Grandi gerir út. Albert segir í samtali við heimasíðu Hampiðjunnar, að upphaflega hafi T90 pokinn verið reyndur á kolmunnaveiðum.
,,Við höfum þó ekki notað þennan poka á kolmunnaveiðum þar sem að kolmunnaaflinn hefur farið allur til bræðslu. Þar sem útlitið skiptir höfuðmáli auk gæðanna, s.s. á makríl- og síldveiðum, hefur T90 pokinn verið notaður. Hann er víðari en hefðbundnir trollpokar, hleypir meiri sjó í gegnum sig og fyrir vikið er minni þrýstingur á fisknum. Allt hjálpar þetta til að auka gæðin og fá betri fisk,“ segir Albert en að hans sögn eru bætt gæði aflans keppikefli hvort tveggja útgerðar og sjómanna.
,,Við erum e.t.v. ekki jafn tengdir verðþróun frá viku til viku á mörkuðunum og félagar okkar í nágrannalöndunum, því það er jafnan samið um heildarverð á þessari eða hinni fisktegundinni fyrirfram ,en það er jafn ljóst að það er okkur í hag að auka gæðin og leitast við að gera stöðugt betur,“ segir Albert Sveinsson.
Að sögn Arne Olesen, sölu- og markaðsstjóra Cosmos Trawl, dótturfyrirtækis Hampiðjunnar í Danmörku, fengu danskar útgerðir í fyrra sem svarar til 23,50 ísl. kr/kg hærra verð fyrir makríl sem veiddur var í flottroll með T90 poka en ef hefðbundnir trollpokar voru notaðir. Til að setja það í samhengi þá samsvaraði það 23,5 milljónum ísl. króna fyrir 1.000 tonna farm.
Þá segir Arne að sá munur sé á gæðunum, ef notaður er T90 poki, að hægt sé að vinna Matjes síld sem er ókynþroska síld og er veidd í flottroll og hringnót að vorlagi.