Hörkufiskirí við Eyjar

Deila:

Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel frá því að verkfalli lauk. Vestmannaey er komin með um 160 tonn í þremur veiðiferðum og Bergey 105 tonn í tveimur. Helmingur afla skipanna er þorskur en hinn helmingurinn er blanda af ýsu, karfa og ufsa. Heimasíða SVN sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar, skipstjóra á Vestmannaey, og spurðist fyrir um fiskiríið. „Við erum búnir að fara þrjá túra og höfum aflað afar vel. Það tók 30 tíma að fá í fullan bátinn í fyrsta túrnum og 36 tíma í öðrum. Við vorum síðan kallaðir inn í þriðja túr en vorum þá komnir með eitthvað í kringum 30 tonn á 12 tímum.

Við erum að fá þetta við bæjardyrnar, erum 1 til 1 ½ tíma frá Eyjum á miðin. Þetta er fallegur og góður fiskur sem veiðist núna. Hann kemur á þetta svæði til hrygningar um þetta leyti en er þó óvenju snemma á ferðinni í ár. Þetta er hefðbundinn göngufiskur sem verður væntanlega á þessum slóðum fram í maí. Vissulega er þessi veiði óvenju öflug miðað við árstíma en við erum í góðum málum og reyndar alsælir. Það er svo sannarlega gott að fá að taka aðeins á því,“ sagði Birgir.

Aflinn af Vestmannaey og Bergey fer að hluta til á markað í Bretlandi og Þýskalandi en eins fer hann til vinnslu víða innanlands.
Á myndinni heldur Vestmannaey VE til veiða. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
 

Deila: