Fengu loðnunótina í aftari hliðarskrúfuna

Deila:

,,Við erum á leiðinni til Vopnafjarðar með um 1.150 tonn af loðnu,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK í samtali við heimasíðu HB Granda á laugardag, en skipverjar urðu fyrir því óhappi í gærkvöldi að hluti af loðnunótinni lenti í aftari hliðarskrúfunni þegar verið var að ljúka við að draga nótina.

Að sögn Alberts varð óhappið seint í gærkvöldi. Skipið var þá statt á um 18-20 faðma dýpi út af Landeyjum vestan við Landeyjahöfn. Kaldafýla var af vestri þegar þetta gerðist.

,,Ég vildi ekki nota fremri hliðarskrúfuna til að rétta skipið af, þannig að stefnið væri upp í vindinn, til þess að fá ekki netið í þá skrúfu líka. Ég hafði samband við skipstjóra nærstaddra skipa og bað um að sett væri taug á milli til öryggis og það varð úr að komið var taug á milli okkar og Álseyjar VE. Það skip hjálpaði einnig til við að koma okkur upp í vindinn og síðan var lokið við að draga nótina um borð.“

Að sögn Alberts er ekki óalgengt að uppsjávarveiðiskipin aðstoði hvert annað til að gæta fyllsta öryggis. Á loðnuveiðum eru skipin yfirleitt nokkur saman að veiðum á litlu svæði, oftar en ekki við krefjandi aðstæður.

,,Eftir löndun á Vopnafirði, sem væntanlega hefst einhvern tíman á morgun, verður siglt til Reykjavíkur. Þar verður nótin, sem var það eina sem tjón varð á, sett í land til viðgerðar og önnur nót tekin í staðinn. Ætli loðnugangan verði ekki þá komin vestur fyrir Reykjanes og þangað er stutt á miðin frá Reykjavík,“ sagði Albert Sveinsson.
 

 

Deila: