Þéttar lóðningar sem gefa mikið

Deila:

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 2.550 tonn af loðnu. Allur aflinn er kældur og er verið að vinna hann í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri segir að vertíðin líti vel út.

„Við vorum að veiða 68 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni og það verður að segjast að veiðiferðin gekk vel. Við fengum aflann í fimm holum og toguðum alltaf í fjóra tíma eða skemur. Í síðasta holinu fengum við 590 tonn og toguðum einungis í einn og hálfan tíma. Það er talsvert mikið að sjá af loðnu. Lóðningarnar eru þéttar og þær gefa vel. Sú breyting hefur orðið að nú fiskast jafnt að nóttu sem degi en fyrr á vertíðinni fékkst lítið yfir nóttina. Nú bíður maður spenntur eftir niðurstöðu mælinga en það hlýtur að verða bætt við kvótann. Það er samdóma álit manna á skipunum að það sé töluvert mikið af loðnu á ferðinni og hún sést víða. Skipin hafa verið að veiða á nokkrum blettum og það er langt á milli þeirra. Ég held og vona að þetta verði ágætis vertíð,“ segir Tómas í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Slæmt veður er á loðnumiðunum núna og útlit fyrir leiðindaveður næsta sólarhringinn. Bjarni Ólafsson AK og Vilhelm Þorsteinsson EA eru á miðunum en það er lítið um að vera vegna veðurs. Börkur NK er í höfn að lokinni löndun og bíður þess að veðrið gangi niður. Polar Amaroq ætlaði að skipa frystri loðnu um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn í dag en vegna veðurs hefur skipið ekki komist inn í höfnina.

Á myndinni er verið að vinna loðnu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

 

Deila: