Stefna að háspennutengingu fyrir skip við Sunda- og Vogabakka

Deila:

Stefnt er að því að byrja að koma upp háspennutengingum fyrir stærri skip við Sundabakka og Vogabakka á næsta ári. Kostnaður við uppsetninguna á því ári er áætlaður um 100 milljónir króna. Tengingin mun gagnast flutningaskipum Eimskips og Samskipa og draga verulega úr útblæstri þeirra í höfn.

Tíu stærstu hafnirnar á Norðurlöndum, að Faxaflóahöfnum sf. og Þórshöfn í Færeyjum meðtöldum, hafa undirritað yfirlýsingu um samstarf og samvinnu á sviði umhverfismála og þar með talið loftslagsmála.  Markmið samkomulagsins er að hafnirnar leggi sitt að mörkum í samræmi við Parísar samninginn. Hafnirnar eru sammála um nauðsyn aðgerða og að samstarf og miðlun upplýsinga um bestu framkvæmd sé leið til að hraða aðgerðum í því skyni draga úr umhverfisáhrifum hafnarstarfsemi og skipaumferðar og gera aðgerðirnar markvissari.

Umhverfismál á hafnarsvæðum snerta fjölmarga þætti svo sem útblástur skipa, móttöku á sorpi, gæðum sjávar og ástandi setlaga á sjávarbotni. Með formlegu og auknu samstarfi stærstu hafna á Norðurlöndum er markmiðið að ná enn frekari árangri.  Faxaflóahafnir starfa samkvæmt vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi en aukið samstarf ætti að nýtast til frekari aðgerða.  Einn mikilvægur þáttur eru háspennutengingar stærri skipa til að draga úr útblæstri skipa sem liggja í höfn.  Í fjárhagsáætlun hafnarinnar fyrir árið 2020 er m.a. gert ráð fyrir 100 mkr. kostnaði við að landtengja skip í Sundahöfn.  Í greinargerð með fjárhagsáætlun segir m.a.:

„Gert er ráð fyrir 50,0 mkr. í háspennubúnað við Sundabakka og 50,0 mkr. í háspennubúnað við Vogabakka.  Allmikið magn upplýsinga liggja nú fyrir um möguleika á háspennutengingum fyrir stærri skip og raunhæft að ætla að unnt sé að setja upp búnað fyrir flutningaskip Eimskipa og Samskipa.  Ef háspennutengingar við Sundabakka og Vogabakka væru fyrstu skrefin í þessari þróun þá þarf að liggja fyrir vilji skipafélaganna að útbúa skip sín þannig að þau geti tekið við tengingum. Enn fremur þarf að liggja fyrir með hvaða hætti Veitur myndu koma að þessu verkefni.  Á grundvelli samstarfs framangreindra aðila mætti sækja um framlag úr Loftslagssjóði.  Nú er að fara af stað vinna starfshóps borgar, Faxaflóahafna sf. og Veitna um hvernig megi taka fyrstu skrefin í háspennutengingum og á grundvelli niðurstöðu þess hóps ætti að vera unnt að koma verkefninu af stað. Framhald málsins ræðst hins vegar af samstarfi og samkomulagi aðila.  Með tilgreindum fjármunum lýsa Faxaflóahafnir sf. yfir vilja sínum til að af verkefninu verði.“

Yfirlýsingu hafnanna tíu má sjá HÉR og stutt umsögn um hana HÉR.

 

Deila: