Þjóna meðal annars ástralskri útgerð á Máritíus.
„Fyrirtækið okkar heitir Skiparadíó og við erum tveir rafeindavirkjar sem við það störfum. Við sjáum um eftirlit og viðgerðir á siglingatækjum í skipum, gerum við radara, dýptarmæla og í raun öll siglingatæki. Í Grindavík þjónustum við mest skip stóru fyrirtækjanna, Vísis og Þorbjarnar og skip víða annars staðar.
Fyrirtækið er stofnað í Grindavík í janúar 2013. Við vorum báðir hjá öðru fyrirtæki sem hét Tæknivík, sem við áttum og rákum í um 15 ár. Það var svo selt til Vélasölunnar og við unnum þar í um það bil tvö ár. Þá hættum við þar og stofnaði ég þetta litla fyrirtæki,,“ segir Jóhannes Gunnar Sveinsson eigandi Skiparadíós, en Jón Berg Jónsson vinnur með mér í því.
Captain Hook
Jóhannes Gunnar nefnir einnig að þeir hafi sérhæft sig í línukerfum. Búið til kerfi fyrir flesta línubátana sem stjórnar drættinum á línunni, hversu mikið afl sé notað og hve hratt sé dregið. Kerfið haldi einnig utan um beitningu línunnar með svipuðum hætti. Þetta er lítið kerfi sem heitir Captain Hook, smíðað af Jóhannesi Gunnari.
Fyrirtækið er að flytja í nýtt og glæsilegt húsnæði í Staðarsundi í iðnaðarhverfinu í Grindavík og Jóhannes segir að allt sá hvolfi en þeir séu að stilla öllu upp á nýtt eftir flutninginn. En almennt séð hefur verið mikið að gera hjá þeim í viðgerðum og eftirliti við togara og línuskip í bænum. Þorbjörn er að kaupa notaðan frystitogara frá Grænlandi, sem áður varð gerður út frá Íslandi og hét þá Arnar og gera þeir félagar ráð fyrir einhverjum verkefnum þegar hann kemur.
„Svo er Vísir að láta smíða nýtt línuskip og við erum að teikna upp tækin í það og skipuleggja þar.“
Byrjaði á bát með pabba
Jóhannes Gunnar er úr Grindavík og byrjaði á sjónum eins og flest allir aðrir í þeim bæ. Hann þekkir því vel til útgerðar línuskipa til dæmis. Hann byrjað með á bát með pabba sínum, en hann átti bát sem hét Jóhannes Gunnar. Byrjaði fyrst á hálfum hlut 14 ára gamall. Hann var svo í nokkur á á Kópnum með Jóa. Þegar hann var búinn að klára rafeindavirkjann lá leiðin beint á sjóinn og var þar í nokkur ár, áður en hann fór í land til að vinna við fagið sitt.
En það er fleira á könnunni hjá fyrirtækinu en almennt puð hér heima. „Ég er núna að fara til eyjarinnar Máritíus í Indlandshafi, en þangað að fer ég einu sinni til tvisvar ári. Ég er þar að þjónusta Ástralskt fyrirtæki. Þeir að veiða tannfisk á línu og ég setti svona línubúnað frá mér þrjú skip hjá þeim á sínum tíma. Í framhaldi af því hef ég verið að þjónusta línukerfin og ýmsan annan tækjabúnað hjá þeim,“ segir Jóhannes Gunnar.
Sækja hugvit til Grindavíkur
Það má segja að það séu góð meðmæli þegar stór útgerðarfélög í Ástralíu sækja sér hugvit og þjónustu til Grindavíkur. Það má geta þess að tannfiskurinn veiðist eingöngu á suðurhveli jarðar. Hann er takmörkuð auðlind og eru að fást allt upp í 40 dollara á kílóið. Það svarar til 4.800 íslenskra króna.
„Við vorum þrír að vinna hérna, en erum bara tveir eins og er. Vorum með strák sem náði sér í stelpu frá Akureyri svo við misstum hann. Við fáum svo strák sem er að læra núna og kemur til okkar með sumrinu og í fríum. Það er því kappnóg að gera,“ segir Jóhannes Gunnar Sveinsson.