Loðnuvertíð að ljúka – næturnar í geymslu

Deila:

Veiðum Síldarvinnsluskipa og annarra skipa sem landa afla hjá Síldarvinnslunni er lokið á þessari loðnuvertíð. Sáralítið hefur veiðst síðustu dagana og það sem skipin hafa fengið er að miklu leyti karlloðna og hrygnd kvenloðna. Fyrir liggur að 160-170 þúsund tonn af útgefnum kvóta verða skilin eftir í sjónum. Vertíðin hefur verið erfið að ýmsu leyti og veðurfarið mjög óhagstætt.

Þessa dagana eru skipin að koma til löndunar í Neskaupstað og eru þau öll með slatta. Aflinn er að mestu leyti tekinn í gegnum hrognavinnsluna en misjafnlega mikið fæst af hrognum úr honum. Polar Amaroq, Polar Ammassak og Beitir hafa þegar landað og nú er verið að landa úr Berki. Bjarni Ólafsson, Barði og Vilhelm Þorsteinsson eru síðan væntanlegir.

Þegar skipin hafa lokið löndun eru næturnar teknar á land og komið fyrir í nótageymslu Hampiðjunnar. Þar með liggur ótvírætt fyrir að vertíðinni er lokið.
Loðnunót grænlenska skipsins Polar Amaroq tekin inn í nótageymslu Hampiðjunnar í  Neskaupstað í gær. Ljósm.: Jón Einar Marteinsson

Deila: