Losunin frá fiskveiðum og fiskeldi dregst saman

Deila:

Undanfarin misseri hefur ekkert viðfangsefni verið eins fyrirferðamikið í umræðunni og loftlags- og umhverfismál, enda ein stærsta áskorun mannkyns í dag. Engu að síður heldur útblástur á gróðurhúsalofttegundum áfram að aukast og virðist heldur hafa færst í aukana á síðustu árum. Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar hefur aukningin verið fimmtungi meiri undanfarin fimm ár en hún var fimm árin þar á undan. Farið er yfir málið í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ísland er engin undantekning í þessum efnum, umræðan mikil og almenn vitundaraukning á sama tíma og útblástur gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun var heildarlosun á koltvísýringi (CO2) frá hagkerfinu ríflega 140% meiri á árinu 2017 en hún var árið 1995. Aukningin hefur einkum verið mikil undanfarin ár. Þetta kemur vart á óvart því aukin umsvif í hagkerfinu á hverjum tíma hafa bein áhrif á losun á CO2, líkt og myndin hér fyrir neðan ber með sér.

Það minnsta sem mælst hefur frá sjávarútvegi
Ákjósanlegt væri ef umsvif í hagkerfinu gætu aukist án þess að það leiddi til aukinnar losunar á gróðurhúsalofttegundum. Slíkt er þó afar sjaldgæft á meðal atvinnugreina á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Einn er sá geiri sem hefur þó náð að draga úr losun á CO2 án þess að það komi niður á framleiðslu. Það er íslenskur sjávarútvegur. Þar hefur heildarlosun á CO2 ekki verið minni eins langt aftur og tölur Hagstofunnar ná.

Fiskveiðistjórnunarkerfið lykillinn
Heildarlosun á CO2 frá sjávarútvegi og matvælaiðnaði var ríflega 55% minni á árinu 2017 en árið 1995. Þar af hefur losunin frá fiskveiðum og fiskeldi dregist saman um tæp 49% og losun frá fiskvinnslu og öðrum matvælaiðnaði um 81%. Fiskeldi er talið með í þessum tölum um fiskveiðar, en umsvif þess hafa stóraukist á undanförnum árum. Margir samverkandi þættir skýra árangurinn en hæst ber fiskveiðistjórnunarkerfið enda gætir áhrifa þess á flesta aðra þætti sem koma við sögu. Kerfið sjálft hefur eflst, fjárfesting í tækjum og búnaði verið mikil, skipum hefur fækkað og eru þau í dag mun öflugri og hagkvæmari í notkun og svo breytt orkunotkun.

Fram til ársins 2003 var losun á CO2 frá sjávarútvegi mest allra atvinnugreina en þar hafa orðið stakkaskipti vegna ofangreindra þátta sem og auknum umsvifum í öðrum geirum hagkerfisins. Á myndinni hér fyrir neðan má jafnframt sjá að hlutdeild sjávarútvegs og matvælaiðnaðar af heildarlosun á CO2 í hagkerfinu var komið niður í 7% árið 2017 en hafði verið 37% árið 1995.

 

Deila: