Eitt stykki bátur kr. 19.932.660
Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. Birtir fyrirtækið pistla um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér er fjallað um kaupin á síldveiðiskipunum Berki og Beiti sem bættust í flota Síldarvinnslunnar á árunum 1966 og 1967.
Síldarvinnslan hóf útgerð með tveimur bátum árið 1965. Þetta voru Barði og Bjartur, systurskip smíðuð í Austur-Þýskalandi og 264 tonn að stærð. Bátarnir voru sérstaklega smíðaðir með síldveiðar í huga enda snerist allt um síldina á Austfjörðum þegar hér var komið sögu.
Útgerð Barða og Bjarts gekk vel frá upphafi og fljótlega hófust umræður um að Síldarvinnslan ætti að festa kaup á fleiri síldarskipum. Á stjórnarfundi í fyrirtækinu í byrjun október 1965 var Hermanni Lárussyni framkvæmdastjóra falið að athuga með kaup á nýju skipi sem yrði þá þriðja skipið í eigu fyrirtækisins. Helst var rætt um að kaupa skip sem yrði smíðað í Austur- Þýskalandi og af svipaðri stærð og Barði og Bjartur. Rúmum mánuði síðar greindi Hermann frá því að undirritaður hefði verið samningur um smíði skips í Noregi. Samningurinn var undirritaður hinn 10. nóvember og kvað á um að skipið yrði smíðað í Ankerlökken Verft A/S í Florö. Gekk smíði skipsins samkvæmt áætlun og var því gefið nafnið Börkur.
Einungis tæplega tveimur mánuðum eftir að samningurinn um smíði Barkar var undirritaður, eða hinn 5. janúar 1966, samþykkti stjórn Síldarvinnslunnar að láta smíða fjórða skipið fyrir fyrirtækið. Samningur um smíði þess var undirritaður 15. júní 1966 og tók Ankerlökken Verft A/S að sér að annast smíðina í samvinnu við Flekkefjord Slipp og Maskinfabrikk en skipið var smíðað í Flekkefjord. Rétt eins og í fyrra tilvikinu gekk smíði skipsins samkvæmt áætlun og fékk það nafnið Birtingur.
Vélasalan hf. í Reykjavík var umboðsaðili Ankerlökken hér á landi á þessum árum og nýlega fékk Síldarvinnslan send ýmis gögn frá Vélasölunni sem tengdust smíði þessara tveggja skipa. Meðal annars bárust samningar um smíði beggja skipanna og reikningur fyrir Birting. Hljóðaði reikningurinn upp á kr. 19.932.660 eða 3.300.000 norskra króna. Hver norsk króna var rúmlega sex íslenskar á þessum tíma.
Börkur kom nýr til Neskaupstaðar 7. nóvember 1966 og þótti hið glæsilegasta skip. Hann var 302 tonn að stærð vel búinn í alla staði. Birtingur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 6. júlí 1967, 306 tonn að stærð og þótti ekki síður glæsilegur. Fyrsti skipstjóri á Berki var Sigurjón Valdimarsson en Filip Höskuldsson var fyrsti skipstjóri á Birtingi. Þeir höfðu áður verið skipstjórar á Barða og Bjarti.
Fljótlega eftir að þessi tvö skip bættust í flota Síldarvinnslunnar lauk síldveiðiævintýrinu eystra. Þau hófu að leggja stund á togveiðar og loðnuveiðar auk þess sem þau veiddu síld á fjarlægum miðum en ljóst var að þau nýttust atvinnulífinu í Neskaupstað verr en áður. Árið 1972 var ákveðið að selja bæði skipin. Kaupandi Birtings var Þróttur hf. í Grindavík og fékk hann nafnið Albert en kaupandi Barkar var Runólfur Hallfreðsson á Akranesi og fékk hann nafnið Bjarni Ólafsson. Til gamans skal þess getið að Runólfur Hallfreðsson ehf. er nú eitt af dótturfélögum Síldarvinnslunnar.