Segir gegnsæi forsendu trausts

Deila:

„Krafa um aukið gagnsæi í sjávarútvegi er hávær meðal almennings og það er mín bjargfasta trú að með því að auka gegnsæið skapist betri skilyrði fyrir trausti milli sjávarútvegs og almennings.” Þetta skrifar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í pistli á vef VG.

Í pistlinum skrifar hún um mikilvægi gagnsæis og segir það lykilatriði í því skyni að bæta stjórnunarhætti. Jafnframt geti skortur á gagnsæi verið uppspretta vantrausts. Í pistlinum fjallar hún um þær vendingar sem orðið hafa í tengslum við rannsókn Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum aðila í sjávarútvegi. Ráðuneytið hafi veitt eftirlitinu fjármuni til að geta flýtt þeirri vinnu sem eftirlitið hafði haft hug á að ráðast í.

„Var því ákveðið að ráðstafa þeim fjármunum sem matvælaráðuneytið hafði áformað til verksins til Samkeppniseftirlitsins en jafnframt var leitast við að athugunin gæti nýst fleiri eftirlitsstofnunum. Enda heimildir ráðuneyta til að gera samninga ótvíræðar. Auk þess var áhersla lögð á að byggja upp upplýsingatæknigrunn þannig að upplýsingar um eigna- og stjórnunartengsl í sjávarútvegi yrðu alltaf ljósar í rauntíma.

Í kjölfar þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála féll í síðustu viku varð ljóst að samningi ráðuneytisins við Samkeppniseftirlitið verður slitið og fjármunir endurgreiddir. Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar gefið það út að stofnunin hafi tekið ákvörðun um að hefja á ný athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, í samræmi við skýrar heimildir og hlutverk eftirlitsins.”

Svandís segir í niðurlagi pistilsins að ráðuneytið muni kynna drög að frumvarpi til laga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar í samráðsgátt í nóvember. Þar verði tekið mið af tillögum um gægnsæi í skýrslu Auðlindarinnar okkar. „Enda er það mikilvæg forsenda aukinnar sáttar um sjávarútveg að gagnsæi sé ekki til skrauts heldur veruleiki.”

Deila: